Vorum að eltast við ýsu

Deila:

„Þennan dag vorum við með eitthvað um 5,5 tonn, um þrjú tonn af ýsu. Við vorum að eltast við ýsu. Þetta er búið að vera frá 5 til 7 tonn hjá okkur eftir að við byrjuðum á nýju kvótaári. Það er enginn kraftur í veiðinni, enda er bullandi af æti hér úti um allt, síld og makríll. Við lögðum í björtu og drógum upp um nóttina fyrir brælu og vorum að fá síld upp á krókunum,“ segir Andrés Pétursson, skipstjóri á Hafdísi SU.

Andrés að landa í nesk

Þorskurinn er bara annaðhvort saddur eða vill ekki beituna okkur. Hann er matvandur þorskurinn og vill heldur ferskan fisk en beituna. Hann tekur ekki hvað sem er. Þetta er búið að vera mjög rólegt. Bátarnir hafa verið að komast í 9 tonn einn daginn og svo lítið sem ekkert þann næsta. Þetta er svona fyrst á haustin en svo fer aflinn að aukast þegar kemur fram í október.

Við erum að róa frá Neskaupstað og ætli við verðum ekki þar þar til nær dregur að jólum. Þetta er svo sama munstrið, haustin fyrir austan og vetrarvertíð fyrir sunnan, frá janúar og fram í maí, en þá róum við mest frá Sandgerði en einnig Grindavík. Svo höfum við verið að stoppa á sumrin.“

Nú eru þrír línubátar, Hafdís, Dórinn og Von gerðir út frá Neskaupstað. Svo eru margir á Stöðvarfirði, Gísli Súrsson, Auður Vésteins og Vésteinn, Kristján og Benni og nokkrir heimabátar róa frá Breiðdalsvík.

Eskja gerir Hafdísi út og þar sem bolfiskvinnslu hjá fyrirtækinu hefur verið hætt, fer aflinn allur á markað.

Myndir Þorgeir Baldursson.

Deila: