Aðför að smábátaútgerð?

Deila:

Starfshópur um faglega heildarendurskoðun á regluverki varðandi notkun veiðarfæra, veiði- og verndunarsvæða á Íslandsmiðum hefur skilað lokaskýrslu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.   Skýrslan er mikil að vöxtum og kennir þar margra grasa. Um hana er fjallað með eftirfarandi hætti á heimasíði Landssambands smábátaeigenda:

Félagsmenn eru hvattir til að kynna sér innihald skýrslunnar þar sem einstaka tillögur hópsins, komist þær í framkvæmd, geta hæglega kollvarpað framtíðarplönum smábátaeigenda, nái þær fram að ganga.

Nú þegar hafa formenn þriggja svæðisfélaga LS brugðist við þeirri tillögu hópsins að banna handfæraveiðar á tilteknum svæðum í Faxaflóa og Breiðafirði.  Óheimilt verði næstu 2 árin að stunda handfæraveiðar á eftirtöldum svæðum:
A.            Vestur af Akranesi tímabilið frá 1. maí – 31. júlí.

  1. Búðargrunn, svæðið út af Búlandshöfða og svæðið við Breka, þar verði óheimilt að veiða      með handfærum í 7 mánuði frá 1. júlí – 31. janúar

Tillaga B er sögð vera tilkomin vegna „innsendra tillagna staðkunnugra sjómanna“.  Á fundi með fulltrúum starfshópsins sem haldinn var í sjávarútvegsráðuneytinu í gær mótmælti formaður Snæfells Örvar Marteinsson því harðlega að þetta hafi verið tillaga Snæfells.  Í umsögn Snæfells hefði eftirfarandi komið fram:

„Varðandi handfæraveiðar mótmælir stjórn Snæfells hugmyndum um svæðalokanir fyrir handfæraveiðum.  Óþarft er að loka svæðum fyrir veiðarfærum sem auðvelt er að taka upp og færa sig um set í stærri fisk.  Stjórn Snæfells leggur til að tekin verði upp persónutengd viðurlög við smáfiskadrápi á handfæraveiðum, tengd skipstjóra báts.  Til dæmis sektir.“

Á fundinum var einnig vísað í yfirlýsingu frá Bárði Guðmundssyni formanni Samtaka smærri útgerða þar sem hann leiðrétti áðursenda umsögn og dró til baka tillögu um bann við handfæraveiðum.

Aðför að smábátaútgerð 

Jóhannes Símonsen formaður Sæljóns á Akranesi og Þorvaldur Gunnlaugsson formaður Smábátafélags Reykjavíkur sögðu að það úr tillögunum sem ætti við Faxaflóa væri bein aðför að smábátaútgerð frá Akranesi og Reykjavík.  Kæmu þær til framkvæmda yrði það endalok þessa útgerðarforms við Faxaflóa svo alvarlegt væri málið.  Tillögurnar yrði því tafarlaust að draga til baka.

Áður höfðu formennirnir sent eftirfarandi frá sér:

„Það er sameiginleg skoðun undirritaðra að lokanir veiðisvæða vegna handfæraveiða eigi aldrei rétt á sér.  Handfæraveiðar eru ekki og geta ekki orðið vandamál sem vinnur gegn uppbyggingu fiskistofna á Íslandsmiðum.“

Á fundinum var þess krafist að lokaskýrslan yrði leiðrétt þannig að sjómenn væru ekki hafðir fyrir því að leggja til bann við veiðum með handfærum.

Í umræðum kom fram að væri ætlunin að hrinda í framkvæmd tillögum starfshópsins yrði haft náið samráð við hagsmunaaðila um útfærslu og tæknileg atriði.

Ljósmynd Hjörtur Gíslason

 

Deila: