Kröfu Brims um rannsóknarmenn vísað frá dómi

Deila:

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur vísað frá kröfu Brims hf. um að ógilt verði sú ákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að tilnefna ekki rannsóknarmenn til að rannsaka tiltekna þætti í starfsemi Vinnslustöðvarinnar í samræmi við tillögu á hluthafafundi 2015. Brim á tæplega 33% hlut í VSV. Frá þessu er greint á heimasíðu Vinnslustöðvarinnar og segir þar ennfremur:

Málið varðar tillögu Stillu útgerðar ehf. á aðalfundi VSV 2. júní 2015 um að tilnefndir skyldu rannsóknarmenn til að rannsaka meðferð eigin fjár VSV i tengslum við samruna félagsins við Ufsaberg útgerð ehf., verðmat eignarhluta félagsins í tengslum við samrunann og fleiri þætti í starfsemi VSV með vísan til 97. greinar laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Tillagan hlaut 30,9% fylgi á hluthafafundinum, þ.e.a.s. stuðning þess hóps sem á það hlutafé sem nú er í eigu Brims en áður var skráð eign Stillu útgerðar.

Héraðsdómur Suðurlands kvað upp þann dóm 25. nóvember 2015 að samruninn við Ufsaberg útgerð skyldi felldur úr gildi.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið komst í apríl 2016 að þeirri niðurstöðu að þar sem héraðsdómur hefði ógilt samruna VSV og Ufsabergs útgerðar væri ekki hægt að verða við beiði um tilnefningu rannsóknarmanna, enda lyti beiðni þar að lútandi að meðferð eigin fjár VSV í tengslum við samrunann við Ufsaberg útgerð.

Í júní 2016 var dómi héraðsdóms hrundið í Hæstarétti og Vinnslustöðin sýknuð af kröfum stefnanda. Þar með stóð óhögguð ákvörðun hluthafafundar VSV frá 8. október 2014 um samrunann við Ufsaberg útgerð.

Stefnandi (Brim) fór fram á það í júlí 2016 að stjórnvaldsákvörðun atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytsins skyldi endurupptekin og ráðuneytið féllst á það í ágúst sama ár.

Við meðferð endurupptökumálsins lagðist meirihluti stjórnar VSV og kjörnir endurskoðendur félagsins sem fyrr gegn tilnefningu rannsóknarmanna en sérstakir endurskoðendur töldu að slík rannsókn væri gagnleg fyrir félagið og hluthafa þess.

Ráðuneytið hafnaði beiðni Stillu útgerðar og tilkynnti það í apríl 2017.

Brim höfðaði í framhaldinu mál gegn ríkinu  í júní 2017 á þeirri forsendu að ákvörðun ráðuneytisins væri efnislega röng, að brotið hefði verið gegn rökstuðningsreglu, réttmætisreglu, rannsóknarreglu og málshraðareglu stjórnsýsluréttar.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi sem sagt í málinu núna 11. desember 2017, vísaði því frá dómi og dæmdi Brim til að greiða 50 þúsund krónur í málskostnað.

Í niðurstöðu dómsins kemur meðal annars fram það álit að

„… Vinnslustöðin hf. hafi haft augljósa beina og einstaklingsbundna hagsmuni af þeirri ákvörðun sem stefnandi krefst að felld verði úr gildi. Getur það ekki haggað þeirri niðurstöðu þótt áhöld séu um stöðu félagsins sem formlegs aðila stjórnsýslumálsins. Bar því nauðsyn til að beina kröfu stefnanda í máli þessu að Vinnslustöðinni hf. hvað sem leið heimild eða skyldu stefnanda til að beina slíkri kröfu einnig að stefnda. Þar sem það var ekki gert er óhjákvæmilegt að vísa málinu í heild sjálfkrafa frá dómi, en telja verður að stefnanda hafi gefist nægur kostur á því að reifa málið að þessu leyti. Kemur því ekki sérstaklega til úrlausnar sú krafa stefnanda að vísa beri þrautavarakröfu stefnda, þ.e. annarri varakröfu hans í efnisþætti málsins, sjálfkrafa frá dómi.

Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 er skylt að úrskurða stefnanda til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 50.000 krónur í ljósi vafaatriða málsins.“

Skúli Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn. María Thejll hrl. flutti málið af hálfu ríkisins en Grímur Sigurðsson hrl. af hálfu Brims.

 

Deila: