Ár skins og skúra

Deila:

„Viðburðaríku ári í íslenskum sjávarútvegi er að ljúka og á þeim tímamótum er gjarnan horf um öxl. Þess sést stað í umfjöllunum hér í blaðinu sem eru fjölbreyttar að vanda og víða komið við sögu í greininni. Það má kannski segja að einmitt árið 2017 endurspegli hvernig sjávarútvegurinn er sem atvinnugrein. Það koma skin og skúrir, stundum fyrirséð, stundum óvænt og óvægið.“

Svo segir Jóhann Ólafur Halldórsson, ritstjóri Sóknarfæris í sjávarútvegi, í inngangi nýjasta tölublaði þess. Í blaðinu er að vanda fjölbreytt umfjöllun um flest svið sjávarútvegsins, veiðar, vinnslu og afleidd störf. Í innganginum segir hann ennfremur:

Jóhann Ólafur

„Upphaf ársins var sannarlega ekki upplífgandi þegar greinin var næsta lömuð vegna verkfalls sjómanna. Úr þessu langa verkfalli hafa útgerðir og vinnslur verið að vinna sig allt árið og það mun vísast taka talsvert lengri tíma á sumum afurðamörkuðum, sem neyddust til að snúa sér annað eftir fiski þegar framboðið stöðvaðist frá Íslandi. Hjól sjávarútvegsins er ákaflega stórt þegar grannt er skoðað og áhrifin því víðtæk þegar svona gerist og ekkert óeðlilegt við að hlutirnir færist ekki í fyrra horf á fáum mánuðum. En að sama skapi undirstrikar þetta hversu mikilvægt það er, bæði greininni og samfélaginu sem heild, að ekki komi til verkfalla sem stöðvað geta nánast alla greinina.

Strax að loknu verkfalli fiskaðist mjög vel af flestum tegundum og til að mynda varð loðnuvertíð mun betri en búist hafði verið við. Mikilvægasta tegund sjávaraflans, þorskurinn, er í góðu standi og það hefur vitanlega mikil áhrif í greininni. Fátt bendir til annars en veiðar á þorski muni aukast enn frekar við næstu úthlutun aflamarks og það telur hratt fyrir greinina sem heild.

Ársins verður líka minnst fyrir þær miklu breytingar sem urðu í togaraflotanum þegar 8 nýir togarar bættust í flotann; einn frystitogari og sjö ferskfiskskip. Þetta er mesta endurnýjun í togaraflotanum á einu ári í sögunni. Til viðbótar eru tveir nýir togarar væntanlegir innan tíðar frá Kína þannig að mikil breyting er að verða á aldurssamsetningu í togaraflotanum. Og hún var tímabær. En stærstu tíðindin eru samt þau við þessar skipakomur að með þeim er verið að stíga algjörlega ný skref tæknilega, byggð á íslensku hugviti og

tækniþekkingu í vinnslu á fiski. Eftir þessu er tekið úti í hinum stóra heimi og fylgst vel með því sem hér er að gerast. Samhliða þessu er líka ör þróun í landvinnslum á Íslandi, sem fjallað er um hér í blaðinu og bent á að tækin og tæknin eru að leysa mannshöndina af hólmi á mörgum sviðum. Það hverfa störf í fiskvinnslum og skipum með þessari þróun en það verða líka til ný störf og öðruvísi.

Sjávarútvegurinn er mjög næmur fyrir stöðu og þróun gjaldmiðils okkar og það hefur berlega komið fram hjá fyrirtækjum í greininni á árinu. Engu að síður er áhugavert að sjá að fjárfesting er vaxandi og endurnýjun og framþróun í skipum og vinnslum. Þetta er endurspeglun á því að horfa þarf til langs tíma í greininni, burtséð frá tímabundnum gengissveiflum eða sveiflum á afurðamörkuðum sem alltaf hafa riðið yfir reglubundið í gegnum árin.“

Deila: