Frjósemi steinbíts rannsökuð
Nýverið var birt grein eftir Ásgeir Gunnarsson, fiskifræðing á Hafrannsóknastofnun, um frjósemi steinbíts í vísindatímaritinu Fisheries Research.
Í þessari rannsókn var 374 steinbítshrygnum safnað á árunum 2001-2006 á mismundi svæðum og árstíma (maí-október), en þroskunartími steinbítshrogna er talinn vera um 6 mánuðir. Markmiðið var að rannsaka breytileika í frjósemi steinbíts milli ára og svæða og einnig hvort uppsog (artesia) væri til staðar, en það er þegar eggbúið hjá fiskum hættir að þróast. Fyrri rannsóknir Hafrannsóknastofnunar hafa sýnt að hrygning steinbíts við Íslands er aðallega í september og október og nær hún hámarki í kringum mánaðamótin.
Niðurstöður sýndu að hrognum steinbíts fækkaði almennt milli mánaða. Reiknað var út að 67 cm steinbítshrygna var að meðaltali með um 9100 hrogn í júní en 7200 í október. Þetta er mismunur upp á 20 %, en munur á fjölda hrogna hjá steinbít milli september og október var innan við 1 %. Samkvæmt þessu er óhætt að nota gögn um frjósemi steinbíts sem safnað er september og október, til að meta hversu mörgum hrognum steinbíturinn hrygnir.
Ekki reyndist vera breytileiki í frjósemi milli svæða, en hins vegar reyndist vera marktækur munur milli ára. Að meðaltali reyndist 57 cm hrygna vera með 4740 hrogn árið 2003 en árið 2005 var fjöldinn kominn niður í 4250 hrogn, sem er um 11% munur. Talið er að mikil orka fari í þroskun eggjanna og fer sú orka ekki í vöxt fisksins. Fyrri rannsóknir Hafrannsóknastofnunar sýndu að á árunum 2002-2006 óx steinbítur fyrir vestan mest árið 2005 en minnst árið 2003. Hugsanlegt er að árið 2005 hafi fiskurinn notað meira af orku sinni í vöxt og því minna í frjósemi.