Mikið af kolmunna til Síldarvinnslunnar

Deila:

Síðustu dagana hafa 7.100 tonn af kolmunna borist til fiskimjölsverksmiðja Síldarvinnslunnar í Neskaupstað og á Seyðisfirði. Kolmunninn fæst í færeysku lögsögunni og hefur veiðin þar verið nokkuð góð samkvæmt færslu á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Bjarni Ólafsson AK kom með 1.800 tonn til Neskaupstaðar sl. fimmtudag og upplýsti Gísli Runólfsson skipstjóri að aflinn hefði hengist í fjórum holum en venjulega var togað í 5-12 tíma í hvert sinn.

Á föstudag kom Börkur NK til Seyðisfjarðar með 2.200 tonn sem fengust í átta holum. Að sögn Háfdans Hálfdanarasonar skipstjóra var töluvert af fiski að sjá á miðunum en hann var ekki mjög þéttur þannig að veiðin var ekki með skarpasta móti þótt engin ástæða væri til að kvarta.

Beitir NK kom síðan til Neskaupstaðar á sunnudagskvöld með 3.100 tonn. Tómas Kárason skipstjóri tók undir með Hálfdani og sagði að vart yrði við töluverðan fisk á svæðinu. „Við vorum að veiða austur af Akrabergi sem er syðsti oddi Færeyja og veiðin var nokkuð góð.  Við fengum að jafnaði hátt í 400 tonn í holi en við toguðum allt upp í 20 tíma. Slæmt veður um þarsíðustu helgi truflaði veiðiferðina nokkuð en við notuðum bræluna til að lagfæra veiðarfærin. Þarna gekk ofsaveður yfir og við viðgerðarvinnuna stóðum við í færeyskum snjóbyl. Slíkt veður er ekki algengt þarna,“ sagði Tómas.

Á myndinni er Beitir NK á kolmunnaveiðum við Færeyjar. Ljósm. Helgi Freyr Ólason

 

Deila: