TF-LIF kvödd

Deila:

Hin fornfræga TF-LIF yfirgaf Reykjavíkurflugvöll í síðasta sinn á dögunum. Þyrlan hefur ekki verið í rekstri Landhelgisgæslunnar frá árinu 2020 en á undanförnum árum hefur þyrlufloti stofnunarinnar verið endurnýjaður með nýrri gerð þyrlna. 
Koma Lífar til Landsins árið 1995 olli straumhvörfum í þyrlurekstri stofnunarinnar enda var þyrlan mun stærri og öflugri en þær sem fyrir voru. Ekki leið á löngu þar til kaupin voru búin að borga sig því á tæpri viku í mars árið 1997 var 39 skipbrotsmönnum bjargað um borð í þyrluna þegar Víkartindur, Þorsteinn GK og Dísarfell fórust. 
Fjölmenni fagnaði þyrlunni þegar hún kom til landsins 23. júní 1995. Flugstjórarnir Páll Halldórsson og Benóný Ásgrímsson flugu þyrlunni til Íslands frá Frakklandi og við heimkomuna sagði Páll að þyrlan hefði reynst vel á heimleiðinni. ,, Þessi þyrla uppfyllir allar okkar óskir og er bylting“. Ásamt þeim Páli og Benóný voru flugvirkjarnir Einar Bjarnason og Jón Pálsson í áhöfn þyrlunnar frá Frakklandi.

TF-LIF var kvödd með viðeigandi hætti af slökkviliði flugvallarins þegar flutt með vörubíl frá Reykjavíkurflugvelli í síðustu viku. Þyrlan verður geymd í flugskýli á Keflavíkurflugvelli þar til hún verður seld síðar á árinu.

Deila: