Forsetahjónin heimsóttu Marel í Danmörku

Deila:

Hr. Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Eliza Reid forsetafrú heimsóttu Progress Point, sýningarhús Marel í Danmörku í síðustu viku. Heimsóknin í Progress Point var hluti af fyrstu opinberu heimsókn forsetans til Danmerkur.

Forsetahjónin komu til Progress Point seinnipart miðvikudags og tók Aiden Nicolai Liltorp, 5 ára gamall sonur Martin Liltorp tæknistjóra Progress Point, á móti þeim og gaf forsetafrúnni fallegan blómvönd.

Forsetahjónin voru því næst boðin velkomin af forstjóra Marel, Árna Oddi Þórðarsyni og eiginkonu hans Eyrúnu Magnúsdóttur. Stjórnarformaður Marel, Ásthildur Otharsdóttir, tók einnig vel á móti forsetahjónunum og sendinefnd þeirra ásamt Sigurði Ólasyni, Lars Jøker og Henrik Ladefoged frá Marel.

Árni Oddur hélt stutta tölu til að bjóða þau velkomin og lagði áherslu á gott samband og vináttu milli Íslands og Danmerkur. Hann útskýrði hvernig framsæknar tækja- og hugbúnaðarlausnir Marel eru að breyta matvælavinnslu í heiminum en stór hluti af starfssemi Marel er í Danmörku þar sem við erum með yfir 500 manns að vinna að nýsköpun og framleiðslu á fjórum mismunandi stöðum.

Eftir ræðu Árna fór hópurinn inn í sýningarsal undir forystu Lars Jøker sem leiddi þau í gegnum ferli véla sem notaðar eru í vinnslu á laxi og var ferskur eldislax frá Íslandi notaður til að sýna vélarnar. Lars sýndi þeim flökunarlínur, skurðarvélar og þótti forsetahjónum mikið til þeirra koma, þá sérstaklega Portion Line sem sker lax á 270 km hraða á klukkustund.

Áður en dagskrá lauk var að sjálfsögðu boðið upp á lax og hélt forsetinn ræðu, þakkaði hlýjar móttökur og sagðist þykja mikið til koma nýstárlegs búnaðar og tækni Marel. Að lokum hélt Árni Oddur kveðjuræðu og afhenti forsetahjónunum gjöf, glerskúlptur eftir Britta Madsen og Soren Gottrup frá Stovring.

 

Deila: