Sameinast um eitt nýtt vörumerki

Deila:

Fyrirtækin Skaginn, 3X Technology og Þorgeir & Ellert verða hér eftir kynnt undir einu sameiginlegu vörumerki, Skaginn 3X. Fyrirtækin, sem eru staðsett á Akranesi, Ísafirði og Reykjavík, hafa verið í miklum vexti á síðustu árum og verið áberandi með tækninýjungar á sviði matvælaiðnaðar, sérstaklega í sjávariðnaði.

„Þessar breytingar eru fyrst og fremst hugsaðar til þess að einfalda og sameina markaðsstarf fyrirtækjanna og auðvelda samskipti við viðskiptavini. Undir einu merki skapast sterkari vitund um starf okkar og þær vörur sem við framleiðum. Þannig getum við hagrætt í markaðsstarfi og gert það enn árangursríkara, ásamt því að styrkja stöðu og sérkenni starfsstöðvanna“ segir Ingólfur Árnason framkvæmdarstjóri Skaginn 3X í fréttatilkynningu.

Þær vörur sem Þorgeir og Ellert selur á erlendum mörkuðum hafa lengi verið markaðssettar undir nafni Skagans. Samstarf milli Skagans og 3X Technology efldist árið 2014 þegar eignarhald fyrirtækjanna sameinaðist að hluta.

„Samvinna okkar hefur gefist vel og við horfum björtum augum til framtíðar. Okkar bíða stór og spennandi verkefni á alþjóðavísu, mörg hver byltingarkennd fyrir markaðinn. Þó starfsemi fyrirtækjanna verði sameinuð undir einu merki, þá viljum við halda í sérþekkingu og einkenni hverrar starfstöðvar fyrir sig og fyrirtækin þrjú munu áfram starfa sem sjálfstæðar rekstrareiningar“ segir Karl Ásgeirsson, rekstrarstjóri Skaginn 3X á Ísafirði.

Í tilefni af sameinuðu merki félaganna, þá var ný sameiginleg heimasíða sett í loftið til að kynna betur vörur félaganna og auðvelda samskipti við markaðinn, http://skaginn3x.com/.

 

Deila: