Vill fá skýringu á lágu makrílverði

Deila:

„Það ætti ekki að hafa farið fram hjá neinum að verkfall sjómanna hefur nú staðið yfir í rúmar 6 vikur og hjá sjómönnum ríkir gríðarleg gremja, reiði, tortryggni og vantraust gagnvart útgerðamönnum. En af hverju er þetta gríðarlega vantraust til staðar? Hér verður fjallað um eitt atriði sem fjölmargir sjómenn hafa nefnt sérstaklega og það er verðmyndun á uppsjávarafla þar sem veiðar og vinnsla eru á sömu hendi.“ Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, vormaður Verkalýðsfélags Akraness í pistli á heimasíðu félagsins. Þar segir hann ennfremur:

„Það er gjörsamlega sláandi að sjá þann gríðarlega verðmun sem er t.d. á síld og makríl milli Íslands og Noregs eins og hefur komið fram í fréttum til dæmis hér og hér. Í þessu samhengi er rétt að benda á að árið 2015 voru seld  184 þúsund tonn í gegnum sölukerfi norska síldarsamlagsins og var meðalverðið 7,98 norskar krónur á kíló, eða tæpar 113 krónur íslenskar. Á Íslandi voru veidd um 168 þúsund tonn af makríl og var meðalverðið á Íslandi sama ár einungis 62 krónur á kíló samkvæmt hagstofunni. Þetta þýðir að í Noregi var verð á makríl 82% hærra en á Íslandi.

Aflaverðmæti á makríl árið 2015 var 10,4 milljarðar hér á landi, en ef íslenskir sjómenn hefðu fengið sama verð fyrir makrílinn og fékkst í Noregi þá hefði verðmætið numið numið tæpum 19 milljörðum! Hér munar heilum 8,6 milljörðum sem þýðir að ef íslenskir sjómenn hefðu fengið sama verð og í Noregi þá hefði aflahlutur íslenskra sjómanna aukist um tæpa 3,1 milljarð!

En hver skildi verðmunurinn hafa verið fyrir síðustu makrílvertíð, það er að segja fyrir árið 2016. Jú, fram hefur komið í fréttum að í gegnum sölukerfi norska síldarsamlagsins hafi farið 133 þúsund tonn af makríl og meðalverðið hafi verið 10,23 krónur norskar á kíló, eða rúmar 144 krónur íslenskar. En hvað skyldi meðalverðið hafa verið á Íslandi á árinu 2016? Samkvæmt Hagstofunni veiddust rúmlega 170 þúsund tonn og aflaverðmætið var 10,9 milljarðar og meðalverðið því 63,9 íslenskar krónur.

Takið eftir að í Noregi var á síðasta ári verið að greiða rúmum 80 krónum hærra verð fyrir kílóið að meðaltali fyrir makríl en á Íslandi eða sem nemur 125%. Hugsið ykkur, íslenskir sjómenn fá 125% minna verð fyrir makríl en fæst fyrir hann í Noregi.

Hvað þýðir þetta á mannamáli? Jú, ef íslenskir sjómenn hefðu fengið sama verð og fékkst í Noregi árið 2016 þá hefði aflaverðmætið ekki verið 10,9 milljarðar heldur 24,5 milljarðar en hér er mismunur á aflaverðmæti upp á 13,6 milljarða sem gerir það að verkum að sjómenn sem stunda makrílveiðar fá 4,9 milljörðum minna í sinn hlut vegna þessa verðmunar á milli Íslands og Noregs.

Ef við tökum árin 2015 og 2016 þá kemur í ljós að við veiddum samtals 338 þúsund tonn og samanlagt aflaverðmæti vegna makrílveiða á þessum árum er á Íslandi  21,3 milljarðar. Ef íslenskir sjómenn hefðu hins vegar fengið sama verð og fæst í Noregi þá hefði aflaverðmætið verið 43,5 milljarðar. Hér munar 22,2 milljörðum sem þýðir að þessi tvö ár er aflahlutur sjómanna 8 milljörðum króna lægri vegna þess verðmunar sem er á milli Íslands og Noregs.

Útgerðamenn verða að skýra hvernig í ósköpunum standi á þessum gríðarlega verðmuni á markíl á milli Íslands og Noregs. Hvernig geta útgerðamenn skýrt það út að verð til sjómanna hér á Íslandi, verð sem þeir nánast ákveða sjálfir hvert eigi að vera, skuli vera allt að 125% en í Noregi? Svo eru útgerðamenn hissa að það ríki vantraust og tortryggni á milli sín og sjómanna þegar svona gríðarlegur verðmunur blasir við sjómönnum ár eftir ár. Hins vegar er einnig er rétt að geta þess að þessi gríðarlegi verðmunur er ekkert einskoraður við makríl, þetta á líka við síld og loðnu.

Ég ítreka það að útgerðamenn verða að leggja allt á borðið og skýra sitt mál og reyndar er það eina í stöðunni að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd af hinu opinbera og sú nefnd þarf að hafa víðtækar heimildir til gagnaöflunar og rannsaka þetta ofan í kjölinn. Útgerðamenn verða að útskýra fyrir þjóðinni af hverju þessi gríðarlegi verðmunur stafar, því það eru ekki bara sjómenn sem verða af gríðarlegum fjármunum þegar allt bendir til þess að ekki sé verið að selja aflann á hæsta verði, heldur verður ríkissjóður, sveitafélög og hafnarsjóðir af miklum skatttekjum vegna þessa.

Útgerðamenn hafa alltaf sagt að þeir hafi ekkert að fela hvað varðar verðmyndun á uppsjávarafla sem þeir nánast ákveða einhliða. Ef þeir hafa ekkert að fela þá hljóta þeir að taka undir þá hugmynd að skipuð verði óháð rannsóknarnefnd sem hafi víðtækar rannsóknarheimildir og kanni hvernig stendur á því að ef við hefðum fengið sama verð fyrir makríl og fékkst í Noregi þá hefði aflaverðmæti á síðustu 2 árum verið 22,2 milljörðum hærra en raunin varð. Kannski eru til eðlilegar skýringar á þessum gríðarlega verðmun eins og útgerðamenn vilja meina en það eru ríkir almannahagsmunir fyrir því að ráðist verði tafarlaust í að finna skýringu á þessum gríðarlega verðmuni á milli Íslands og Noregs. Ég vil líka að lokum minna útgerðamenn á grein í kjarasamningi sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi þar sem skýrt er kveðið á um að útgerðamenn skuli tryggja skipverjum hæsta gangverð fyrir fiskinn.

Til að eyða vantrausti og tortryggni á milli sjómanna og útgerðamanna verða verðlagsmál á sjávarafurðum að vera hafin yfir allan vafa, en slíku er ekki til að dreifa í dag. Alla vega ekki hvað varðar verðlagningu á uppsjávarafla.“

 

Deila: