Frumkvöðull í nýtingu sjávarafurða heiðruð

Deila:

Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir,  framkvæmdastjóri Iceprotein ehf og Protis ehf., hlaut í vikunni hvatningarverðlaun Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).

Í rökstuðningi dómnefndar FKA segir m.a. að „Hólmfríður sé frumkvöðull þegar kemur að nýtingu afurða úr sjávarútvegi, sé aðili að fyrirmyndar samstarfi innan sveitarfélags á landsbyggðinni og milli háskóla- og rannsóknarstofnana með stuðningi atvinnulífsins.“

Hér má sjá myndband sem FKA og SIGVA Media unnu við tilefnið.

https://youtu.be/TPP1RtS9r9A?list=PLezMeWyhikXapg4O7Vv9As_psOIpyPZzf

„Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann á svona stundum en fyrst og fremst er það þakklæti,“ sagði Hólmfríður í þakkarávarpi sínu og hélt áfram: „Mig langar því til að byrja á því að þakka dómnefnd, stjórn og framkvæmdastjóra FKA fyrir þann mikla heiður sem þau sýna mér og mínu starfi hér í dag með því að veita mér hvatningarverðlaun FKA. Þetta eru mikilvæg verðlaun í mínum augum þar sem þau varpa ljósi á frumkvöðlavinnu kvenna og ég vona að verðlaunin veiti fleiri konum en einungis mér hvatningu til að halda áfram að sýna frumkvæði og vinna að nýsköpun.
En þó svo að ég standi hér í dag og veiti þessum verðlaunum viðtöku þá hafa margir lagt mér lið við uppbyggingu á Iceprotein og Protis. Fyrst að nefna er það starfsfólk þessara fyrirtækja, sem hefur lagt hug og hjarta í vinnuna og hefur haft kjark til að feta með mér ótroðnar slóðir og eiga þau bestu þakkir skilið fyrir það. Einnig langar mig til að þakka starfsfólki FISK Seafood fyrir þá ómetanlegu aðstoð sem þau hafa veitt mér. Þetta er fólk sem býr yfir mikilli þekkingu á framleiðslu og rekstri fyrirtækja og þarf víst ekki að fara mörgum orðum um það hér hversu vel það hefur komið sér fyrir raunvísindamanneskjuna mig.

Mig langar sérstaklega til að þakka Jóni Eðvald Friðrikssyni, framkvæmdastjóra FISK Seafood fyrir að hafa haft trú á mér og gefið mér tækifæri til að taka við Iceprotein og byggja fyrirtækið upp eftir mínum hugmyndum, og hann gerði gott betur en það, hann stofnaði með mér Protis og leyfir mér að sjálfsögðu að ráða öllu þar. Ég hlakka mikið til að halda áfram að starfa með öllu þessu góða fólki í framtíðinni við að byggja Iceprotein og Protis frekar upp.
Ég er afar þakklát fyrir vinnuna mína þar sem ég tel það forréttindi að starfa við að bæta umgengi við náttúruauðlindir og um leið að skapa þekkingu, verðmæti og sérhæfð störf í byggðarlaginu mínu, Skagafirði. Það eru líka forréttindi að stunda nýsköpun í íslenskum sjávarútvegi þar sem mikil hefð er fyrir samstarfi og stuðningi við nýsköpun enda eru menn þar á bæ meðvitaðir um hvaða þýðingu nýsköpun hefur fyrir framgang greinarinnar.
Að lokum langar mig til að þakka fjölskyldunni minni fyrir allan þann stuðning og þann mikla skilning sem þau hafa sýnt mér þegar mikið er að gera í vinnunni sem er ansi oft.“

Verðlaunin afhenti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, ásamt Lóu Þórhallsdóttur, formanns FKA. Auk Hólmfríðar var Guðrún Hafsteinsdóttir heiðruð en hún er einn eiganda og markaðsstjóri Kjöríss, formaður Samtaka iðnaðarins og varaformaður Samtaka atvinnulífsins og var veitt FKA viðurkenningin 2017. Þakkarviðurkenningu FKA 2017 hlaut Hafdís Árnadóttir, stofnandi og eigandi Kramhússins.

Deila: