Öflugt flutninganet

Deila:

Sterk samkeppnisstaða Íslands á sér meðal annars rætur í öflugu flutninganeti. Þetta flutninganet á sér vart hliðstæðu í nokkru öðru litlu ríki í heiminum þegar litið er til fjölda áfangastaða flutningafyrirtækja miðað við höfðatölu.

Án efa er þessi víðtæka flutningastarfsemi ein helsta ástæða þeirrar velmegunar sem Íslendingar búa við. Íslenski sjávarútvegurinn og reyndar matvælageirinn sem heild hafa notið þess að geta boðið viðskiptavinum sínum upp á góðar tengileiðir; beinar siglingar og flug til ótal borga á Vesturlöndum.

Svo segir í greiningu Sjávarklasans um flutninganetið sem tengis Ísland við umheiminn. Þar segir ennfremur:

„Sú áskorun sem sjávarútvegurinn stendur frammi fyrir nú er að þeir markaðir, sem íslensk flutningafyrirtæki og um leið útflytjendur sjávarafurða hafa þjónað um hundruð ára eru sumpart hnignandi. Í samanburði við Asíu er hagvöxtur í okkar heimshluta rýr og fólksfjölgun lítil. Á evrópsku og bandarísku markaðina verður mögulega erfiðara að selja eina vönduðustu sjávarafurð sem til er við Atlantshaf; Atlantshafsþorskinn. Það sama má segja um önnur íslensk matvæli sem áhugi er á að markaðssetja sem einhver hreinustu matvæli heims; skyr, vatn, bjór, lamb og áfram mætti telja. Á sama tíma og hágæðamörkuðum í Evrópu og Bandaríkjunum fækkar fer þeim ört fjölgandi í löndum eins og Kína og Suður Kóreu.

Eitt stærsta hagsmunamál íslensks sjávarútvegs á komandi árum kann að vera bættar samgöngur og uppbygging tengslaneta við Asíu. Þetta hafa m.a. íslensk sjávarútvegsfyrirtæki skynjað en sum þeirra hafa í vaxandi mæli sýnt áhuga á að efla sitt sölustarf í þessum heimshluta. Þessum áhuga þarf þó að fylgja öflugt flutninganet á þessar slóðir.

Fjölgun siglingaleiða skipafyrirtækja eins og Eimskips á norðurslóðum skapar tækifæri til að efla Ísland sem miðstöð flutninga með sjávarafurðir og um leið að auka möguleika á frekari áframvinnslu með fisk frá öðrum löndum hérlendis. Þetta á meðal annars við um auknar skipaflutningaleiðir til bæði austurstrandar Bandaríkjanna, Kanada og Noregs. Mikið er rætt um siglingaleiðina yfir norðurpólinn og ljóst er að sú leið kann að komast fyrr í gagnið en áætlað hafði verið. Frekari skipaflutningar á þessu svæði geta þó haft slæmar afleiðingar fyrir heilbrigði hafsins og þar með ímynd þess sem eins hreinasta hafs á jörðunni.

Stóra breytingin sem er mun líklegri til að opna dyr inn á áhugaverða markaði fyrir íslensk matvæli, er beint flug frá Íslandi til Asíu en líklegt verður að teljast að af því verði innan nokkurra ára. Bæði hafa flugfélög viðrað hugmyndir um beint áætlunarflug með farþega og frakt og síðan hefur verið áhugi hjá sérhæfðum flugfélögum að hefja fraktflug til Asíu, mögulega frá Norður Ameríku með millilendingu hérlendis. Hér verður ekki lagt mat á hvenær beinar skipa- eða Öflugt flutninganet Sterk samkeppnisstaða Íslands á sér meðal annars rætur í öflugu flutninganeti. Þetta flutninganet á sér vart hliðstæðu í nokkru öðru litlu ríki í heiminum þegar litið er til fjölda áfangastaða flutningafyrirtækja miðað við höfðatölu. flutningaleiðir opnist á næstu árum en sjónum þess í stað beint að mögulegum tækifærum og undirbúningi slíkra breytinga.

Árið 2013 hófst beint flug frá Denverborg í Coloradofylki í Bandaríkjunum til Japans. Um er að ræða eitt farþegaflug í viku. Að sögn forsvarsmanna borgarinnar hafa áhrif þessa flugs þegar komið fram í auknum viðskiptum og þótt aðeins sé um að ræða eitt flug í viku er áætlað að flugið skapi sem nemur um 3 milljörðum króna í aukna veltu á Denversvæðinu. Þótt ekki sé um fraktflug að ræða milli Japans og Coloradofylkis þá telja fosrvarsmenn borgarinnar að með beinu farþegaflugi muni fylgja meiri flutningar af öðru tagi, innflutningur og útflutningur, og margháttuð viðskiptasambönd verði til.

Ljóst er að þær vörur, sem helst er hægt að sjá fyrir að verði sendar með flugi svo langa leið, séu ferskvara úr sjávarútvegi og síðan ýmis önnur matvæli sem kunna að vera í tilbúnum umbúðum og hugsuð fyrir gæðamarkaði. Á hinn bóginn er líklegt að beint flug muni óbeint einnig stuðla að eflingu sölu á iðnaðarvöru frá íslandi eins og til að mynda með tækni fyrir sjávarútveg og vinnslu.

Ástæða er til að dusta rykið af ýmsum hugmyndum og athugunum, sem ræddar hafa verið á vettvangi atvinnulífsins á undanförnum árum og áratugum um tækifæri Íslands vegna landfræðilegrar stöðu landsins og samgöngutenginga. Þessar hugmyndir hafa meðal annars fjallað um hvernig efla megi Ísland sem m.a. frísvæði með vörur, svæði þar sem samsetningar á iðnaðarvöru fari fram, frekari fríverslunarsamninga o.s.fv. Ný ríkisstjórn á í samstarfi við atvinnulíf að skoða hvernig megi best undirbúa efnahagslífið allt fyrir þau tækifæri sem kunna að opnast. Þessi undirbúningur getur falist í öllu frá menntakerfi, uppbyggingu Keflavíkurflugvallar til aukinna fríverslunarsamninga. Þá er mikilvægt að efla starf viðskiptaskrifstofa og viðskiptaráða í þessum löndum.

Nú þarf öflugt klasasamstarf sem teygir sig inn í stjórnkerfið og atvinnulíf og menntastofnanir. Leiðandi stofnanir í atvinnulífinu eins og Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands eiga að hafa forystu um heildstæða stefnu- og framkvæmdaáætlun á því sviði. Íslenski sjávarklasinn er reiðubúinn að koma að því starfi.

Íslendingar hafa nú um árabil aðallega beint athygli og umræðu að staðsetningu Reykjavíkurflugvallar þegar rætt er um flutningakerfið. Alþjóðlegar flugtengingar og uppbygging alls flutningakerfisins opna mikil tækifæri fyrir Ísland verða að komast betur að í umræðu og stefnumörkun stjórnvalda.“

Deila: