Hnýtti spyrðubönd í stofusófanum
Ísfirðingurinn Guðrún Anna Finnbogadóttir er maður vikunnar á Kvótanum. Hún er framleiðslustjóri hjá Odda hf. á Patreksfirði. Hún er með háskólamenntun í sjávarútvegsfræði og byrjaði um 10 ára aldurinn að vinna við sjávarútveg. Hana langar að fara með fjölskylduna í ferðalag til Tælands.
Nafn?
Guðrún Anna Finnbogadóttir
Hvaðan ertu?
Ég er fædd og uppalin á Ísafirði.
Fjölskylduhagir?
Ég er gift Steinari Ríkharðssyni og við eigum þrjá flotta krakka Finnboga 1999, Ríkharð Inga 2003 og Sólrúnu Elsu sem er fædd 2007.
Hvar starfar þú núna?
Ég er framleiðslustjóri hjá fiskvinnslunni Odda hf. á Patreksfirði.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Pabbi var skipstjóri og í stofusófanum vorum við stundum að hnýta spyrðubönd, svo ég byrjaði í kringum 10. ára aldurinn. Ég er með BSc í sjávarútvegsfærði og hef unnið störf tengd sjávarútvegi síðan ég útskrifaðist árið 1997. Árið 2010 tók ég svo Mastersgráðu í umhverfisstjórnun með áherslu á lífsferil fiska frá veiðum og á diskinn.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Sjávarútvegur er auðvitað alþjóðaviðskipti og mér finnst mjög gaman hversu fjölbreytt starfið er. Að púsla saman framleiðslu, gæðamálum, sölumálum og markaðssetningu er gaman og skemmtilegast þegar allt dæmið gengur upp. Það má ekki gleyma að það er mikið af skemmtilegu fólki í bransanum.
En það erfiðasta?
Að sama skapi er erfiðast að hafa svona mörg járn í eldinum í einu, það er mikið stress stundum.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Ætli það sé ekki þegar ég var ráðgjafi í Danmörku og við fórum á fund í Nyköbing Mors og fólkið byrjaði að tala. Það rann svitinn niður bakið á mér þar sem ég skildi ekki bofs, Þá hugsaðu ég, „hvað ertu nú búin að koma þér útí Guðrún Anna“. Mér létti mikið þegar samstarfsmaður minn, danskur, skildi þau ekki heldur.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Hlynur Aðalsteinsson verkstjóri á Þingeyri þegar ég kom nýútskrifuð sem sjávarútvegsfræðingur og kunni alls ekki allt, hann var alltaf tilbúinn að fræða og styðja.
Hver eru áhugamál þín?
Mér finnst gaman í göngutúrum, að lesa góðar bækur og menning.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Spennandi saltfiskréttir finnst mér alltaf góðir.
Hvert færir þú í draumfríið?
Draumurinn er að fara með alla fjölskylduna til Tælands þar sem ég bjó í tvö ár og upplifa saman það fallega land.