Veiðigjald lækkar úr 11 milljörðum í 7

Deila:

Veiðigjald hefur sveiflast mikið undanfarin ár í nokkrum takti við afkomu sjávarútvegsins, reyndar með tveggja ára seinkun þar sem gjaldið hefur miðast við afkomuna tveimur árum áður en það greiðist. Nú verður miðað við afkomuna árið áður en gjaldið reiknast og á næsta ári er reiknað með að gjaldið verði 7 milljarðar króna.

Áætlað er að veiðigjald á þessu ári skili ríkinu um 11 milljörðum króna. Það er hæsta upphæð frá árinu 2009. Árin 2012 og 2013 nam veiðigjaldið um 10 milljörðum króna hvort ár. Árið 2017 var það rúmir 6 milljarðar og rúmir 8 milljarðar árið áður.

Í frumvarpinu nú er bráðabirgðaákvæði sem kveður á um veiðigjald fyrir hverja fiskitegund, sem gjaldið fellur á á árinu 2019. Í samræmi við áætlaða heildarupphæð lækkar gjaldið á hverja fiskitegund umtalsvert nema á á loðnu og makríl.

Sé byrjað á þorskinum verður veiðigjald á hvert kíló óslægt á næsta ári 13,80 krónur. Á þessu ári var það 22,98 krónur og 11,09 fiskveiðiárið 2016/2017. Fyrir ýsu greiðast 16,15 krónur á næsta ári, en gjaldið í ár er 26,20 og 11,53 árið þar áður. Gjald á grálúðu verður 35,19 krónur en er nú 50,79 krónur og árið þar á undan var það 26.75 krónur.

Gjald á loðnu og makríl hækkar öndvert við flestar aðrar fiskitegundir. Á næsta ári skal greiða 2,13 krónur fyrir hvert kíló. Á þessu ári er gjaldið 1,71 og árið þar áður var það 1,87 krónur. Veiðigjald á makríl verður 3,55 krónur á kíló, en er í ár 3,27 krónur og var árið áður 2,78 krónur.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.

Deila: