Byrjaði að gella 11 ára
Gummi Reynis er maður vikunnar á Kvótanum að þessu sinni. Hann er frá Bolngarvík og byrjaði 11 ára að gella og ganga í hús og selja þær. Nú vinnur hann í Fiskbúðinni Hafberg og lætur vela af sér þar. Hann dreymir um að fara til Florida í frí, baða sig í sólinni og spila golf.
Nafn:
Guðmundur Óskar Reynisson.
Hvaðan ertu:
Ég er frá Bolungarvík. Því fræga sjávarþorpi.
Fjölskylduhagir?
Ég er giftur Önnu Maríu Schmidt og við eigum þrjár dætur og tvö barnabörn.
Hvar starfar þú núna?
Ég vinn í fiskbúðinni Hafberg, sem er sögð vera sú allra besta á landinu og þótt víðar væri leitað.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
Ég byrjaði ungur að gella í saltfiskverkun Gumma Rós í Bolungarvík fékk að eiga allar gellurnar sem ég seldi í hús sjálfur. Ætli ég hafi ekki verið svona 11 ára.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Sjávarútvegurinn er fjölbreytileg atvinnugrein allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Það er gaman að vera á færum í góðu veðri og mokveiði, sérstaklega við Ísafjarðardjúp. Það er svo fallegt þar.
En það erfiðasta?
Fjarveran frá fjölskyldunni í langan tíma út á sjó og engu fiskeríi.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Það er skrýtið hvað sjóveikin getur leikið mann grátt.
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Hann heitir Óskar Kjartan Guðmundsson. Hann er gull af manni og reitir af sér brandarana í fiskbúðinni. Það leiðist engum þegar Óskar er annars vegar.
Hver eru áhugamál þín?
Ég hef gaman af hjólreiðum, spila golf og að synda.
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Soðin ýsa með miklu sméri.
Hvert færir þú í draumfríið?
Mig hefur alltaf langað að fara til Bandaríkjanna, Floridaskagann, baða mig þar í sólinni og spila golf.