Strandveiðibátarnir komnir yfir þúsund tonn
Að loknum 9 dögum á strandveiðum er aflinn 1.003 tonn sem er fimmtungi minna en á sama tíma í fyrra. Að sama skapi eru nú færri bátar á veiðum, 352 sem landað hafa afla á móti 435. Farið er yfir stöðuna á heimasíðu Landssambands smábátaeigenda:
Fækkun báta og minni afli er sláandi á svæði B. Aflinn þar innan við 40% af því sem komið var á land í fyrra.
Á svæði D er hins vegar betri þátttaka í veiðunum, 90 bátar byrjaðir á móti 85 í fyrra.
Fimm bátar eru komnir með yfir 7 tonn, fjórir af þeim hafa náð að róa alla 9 dagana (eiga því aðeins 3 daga eftir í maí), en einn þeirra með 8 daga.
Samkvæmt útgefinni reglugerð er viðmiðunarafli 10.200 tonn, heildaraflinn sem kominn er á land er því rétt innan við 10%.
Í maí eru 16 dagar til strandveiða og hefur hver bátur heimild til að nýta 12 af þeim.