Bakaður saltfiskur
Lífið er saltfiskur, eða var það á árum áður að minnsta kosti, þegar saltfiskur var einhver mikilvægasta útflutningsafurð Íslendinga. Svo er reyndar ekki lengur, en frá því Salka Valka var að vinna í saltfiski hefur margt breyst. Saltfiskurinn er ekki lengur þurrkaður úti á saltfiskreitum eins og þá, enda hætt við að það gengi illa að minnsta kosti þessa dagana. Saltfiskurinn er nú ýmist framleiddur sem blautverkaður flattur fiskur eða léttsöltuð flök.
Við borðum saltfiskinn heldur ekki lengur soðinn með beinum og roði með hamsatólg, heldur gerum úr honum einstakan veislumat að hætti þeirra þjóða, sem keypt hafa af okkur saltfiskinn öldum saman, að hætti Grikkja, Ítala, Spánverja og Portúgala. Eftirfarandi uppskrift er ættuð frá Portúgal. Þetta er einfaldur, hollur og bragðgóður réttur.
Innihald:
800 gr saltfiskhnakkar
4-6 meðalstórar kartöflur, flysjaðar og skornar í fernt
4-6 hvítlauksrif, skorin í sneiðar
2 dl hágæða ólífuolía
1 msk paprikuduft
¼ tsk salt
½ tsk svartur pipar
1 msk þurrkuð steinselja
1 gul paprika, sneidd
1 rauð paprika, sneidd
1 stór laukur, afhýddur, helmingaður og sneiddur
½ bolli hvítvín
20 svartar portúgalskar ólífur
Aðferð:
Hitið ofninn í 180°C. Setjið kartöflurnar í pott og sjóðið í 5 mínútur. Takið þær síðan upp og leggið á viskastykki til þerris.
Setjið um einn desilítra af ólífuolíu á góða pönnu og steikið hvítlaukinn í 30 sekúndur. Setjið kartöflurnar þá út á pönnuna og síðan paprikuna og laukinn og snöggsteikið.
Blandið kryddinu og steinseljunni saman og kryddið grænmetið með þremur fjórðu af því. Kryddið saltfiskinn með því, sem eftir er. Færið síðan grænmetið yfir í ofnfast mót og blandið saltfiskinum saman við í hæfilegum bitum. Hellið smávegis af ólífuolíu og víninu yfir.
Setjið í ofninn og bakið í 30 mínútur eða þar til allt er eldað í gegn. Hrærið létt í blöndunni einu sinni til tvisvar. Hækkið hitann í 220°C. Setjið ólífurnar ofan á réttinn og bakið áfram í 10 mínútur.
Gott rauðvín er tilvalið með þessum góða rétti, fyrir þá sem það nota.