Togararnir fyrir vestan vegna veðurs

Deila:

,,Við fórum hingað norður eftir, í og með veðurspána í huga, en það er spáð skítabrælu fyrir sunnan. Við hófum veiðar reyndar fyrir sunnan og tókum þar hluta af karfaskammtinum en nú erum við komnir í kantinn vestur af Patreksfirði og við verðum væntanlega á Vestfjarðamiðum út túrinn,“ segir Friðleifur Einarsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Engey RE í spjalli við heimasíðu HB Granda síðastliðinn föstudag.

Engey hóf yfirstandandi veiðiferð sl. miðvikudag eftir stutt stopp í Reykjavíkurhöfn. Tíminn var notaður til að landa afla veiðiferðarinnar, 600 körum af fiski eða alls um 180 tonnum, og svo var lagt í hann að nýju.

,,Að þessu sinni byrjuðum við veiðar á Eldeyjarbanka og tókum þar hluta af karfaskammtinum. Í ljósi versnandi veðurs og veðurspárinnar fyrir helgina var skynsamlegast að drífa sig norður á Vestjarðamið,“ segir Friðleifur en ljóst er að fleiri hugsa líkt því töluverður fjöldi togara er nú að veiðum á Vestfjarðamiðum og þar með taldir eru allir HB Grandatogararnir, að Örfirisey RE undanskildum en sá frystitogari er nú á úthafskarfamiðunum á Reykjaneshryggnum.

Að sögn Friðleifs hefur verið þokkalegasta veiði í kantinum vestur af Patreksfirði frá því að skipið kom á svæðið. Aflinn er aðallega þorskur en með honum hefur fengist ufsi og karfi. Samkvæmt áætlun á Engey ekki að vera í höfn fyrr en í dag þannig að áhöfnin hafði góða þrjá sólarhringa í viðbót til að ná fullfermi.

Deila: