Fullfermi landað eftir 28 tíma túr

Deila:

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergur VE héldu báðir til veiða eftir miðnætti sl. föstudag og komu inn til Eyja með fullfermi af gullfallegum stórþorski klukkan fjögur aðfaranótt páskadags. Frá þessu er sagt á vef Síldarvinnslunnar. Veiðiferð beggja skipa tók því 28 klukkustundir. Landað var úr skipunum í gærmorgun og fór aflinn til saltfiskvinnslu Vísis í Helguvík. Að lokinni löndun var haldið til veiða á ný um hádegisbil í gær að því er segir í fréttinni.

Þar er rætt við Ragnar Waage Pálmason skipstjóra á Bergi en þá var skipið að veiðum á Víkinni í kaldafýlu. „Við erum núna að reyna við ýsu og það er nuddveiði. Túrinn fyrir páskana var mjög góður. Það gekk vel að fiska, en bæði við og Vestmannaey vorum þá að veiða á Planinu vestan við Eyjar. Þar fékkst góður stórþorskur og veður var þokkalegt, dálítill vindur en tiltölulega sléttur sjór. Það hefur verið heldur þrálát norðaustanátt hérna að undanförnu. Upp á síðkastið hefur verið býsna mikil keyrsla á skipunum. Við fórum til dæmis ellefu veiðiferðir í mars. Það hefur verið tekið á því síðustu vikurnar. Svona keyrsla væri ekki möguleg nema vegna þess að um borð er hörkumannskapur,” segir Ragnar Waage.

Deila: