„Ég er aldrei búinn að ákveða hvert ég fer“

Deila:

„Ég nota fríin mín í þetta og finnst æðislegt að hafa það frjálsræði að geta róið heiman frá mér, út á flóann sem ég ólst upp við, með pabba mínum eða börnunum.“ Þetta segir Sigmar Ingi Ingólfsson strandveiðimaður og togarasjómaður. Sigmar, sem rær á Sigrúnu Hrönn ÞH 36 frá Húsavík, var með allra aflahæstu bátum á C-svæði í sumar. Hann landaði rúmlega 24 tonnum af fiski, þar af 22 tonnum af þorski í 29 róðrum.

Strandveiðar voru stöðvaðar frá og með 12. júlí í sumar, þegar enn voru sjö vikur eftir af áætluðum tíma. Í nýju tölublaði Ægis eru strandveiðarnar gerðar upp. Þar er rætt ítarlega við Sigmar og tölfræði birt um aflaskiptingu á milli svæða og framgang veiðanna.

Eins og áður segir gekk Sigmari betur en flestum öðrum á þessu svæði í sumar. Ekki stendur á svörum þegar hann er spurður hvaða heilræði hann myndi gefa nýliða í greininni. „Mér finnst þeim ganga best sem fara eftir sinni sannfæringu og eru ekki bara að elta hina þegar ég leysi landfestar. Ég skoða kortið, spái í veðrið og náttúruna,“ segir hann og bætir við að þeir sem séu sífellt að elta aðra báta fari oft á mis við fiskinn þegar hann er að taka. Fiskurinn taki oft bara í stuttan tíma eða á öðru fallinu.

„Maður þarf að hafa þrautseigju og þol inmæði að vopni og lesa svolítið í náttúruna. Það er líka mikilvægt að vera með góð tæki og kunna að lesa í þau.“

Deila: