Tundurdufli eytt
Sprengjueyðingarsveit Landhelgisgæslunnar var kölluð út í síðustu viku þegar Ljósafell SU-70 fékk tundurdufl í trollið austur af landinu. Ljóst var að veruleg hætta var á ferðum því duflið var komið upp á dekk. Sprengjusérfræðingur LHG hafði samband við skipverja og bað þá að tryggja duflið þannig að ekki kæmist á það hreyfing.
Eftir að hafa skoðað myndir af duflinu var ákveðið að sprengjusérfræðingar færu þegar í stað á vettvang til að gera duflið óvirkt. Þyrlan TF-GNA flutti sérfræðingana og búnað þeirra austur og var lent við þjóðveginn nærri bænum Vík í sunnanverðum Fáskrúðsfirði. Þeir fóru svo um borð í Ljósafellið með slöngubát frá björgunarsveitinni Geisla á Fáskrúðsfirði.
Þegar um borð var komið fóru sprengjusérfræðingarnir yfir öryggisatriði og verkáætlun með skipstjóra og yfirstýrimanni. Að því búnu var duflið tryggt til flutnings og sett í sjóinn en fest við slöngubátinn þannig að það var á 1,5 metra dýpi. Svo var siglt á heppilegan stað og duflinu sökkt niður á tíu metra dýpi. Ljósafellið sigldi svo sína leið til Fáskrúðsfjarðar.
Eftir að duflinu hafði verið komið fyrir var sett á það bauja með ljósmerki og sólarupprásar svo beðið. Á áttunda tímanum að morgni mánudagsins köfuðu liðsmenn sprengjueyðingarsveitarinnar niður og festu sprengjuhleðslu á duflið til að eyða því. Tæpri klukkustund síðar var duflið sprengt. Á meðan eyðingunni stóð lokaði lögregla þjóðveginum í um hálfs kílómetra fjarlægð frá duflinu. Allt gekk að óskum en ljóst var af sprengingunni að duflið var algerlega virkt.
Tundurduflið er að öllum líkindum frá því í síðari heimsstyrjöld en á stríðsárunum var tugþúsundum tundurdufla komið fyrir í sjónum á milli Íslands og Skotlands. Tundurdufl, djúpsprengjur og aðrir hlutir sem innihalda sprengiefni koma alltaf öðru hvoru í veiðarfæri skipa eða finnast reknir á fjörum. Það er því áríðandi að þeir sem finna slíka hluti geri sér grein fyrir þeirri hættu sem af þeim getur stafað og hafi hiklaust samband við Landhelgisgæsluna. Nánari fróðleik um þessar vítisvélar má lesa hér .