Verulega dregur úr olíunotkun í sjávarútvegi

Deila:

„Dregið hefur úr losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskum sjávarútvegi um 43% frá árinu 1990. Fari svo fram sem horfir, verður talan komin í 54% árið 2030. Parísarsamkomulagið, um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, miðast við tímabilið 1990 – 2030. Á dögunum voru kynntar merkilegar niðurstöður nýrrar könnunar á viðhorfi Íslendinga til umhverfis- og loftslagsmála á umhverfisráðstefnu sem Gallup stóð fyrir í Hörpu.“

Þetta kemur fram í pistli á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar segir ennfremur:

„Forstjóri Umhverfisstofnunar flutti erindi og fram kom að Íslendingar standa sig ekki nógu vel, svo halda megi fyrirheit um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fram til ársins 2030. Reyndar er staðan sú að losun gróðurhúsalofttegunda hefur heldur aukist á undanförnum árum. Heildarolíusala á Íslandi var 616 þúsund tonn árið 1990, en árið 2016 var þessi tala komin upp 869 þúsund tonn og jókst þar með um 41% á tímabilinu. Á sama tíma dróst notkunin saman í sjávarútvegi um 106 þúsund tonn; úr 248 þúsund tonnum í 142 þúsund tonn. Ef íslenskur sjávarútvegur er undanskilinn úr tölunum um olíunotkun má sjá að olíunotkun annarra hefur nær tvöfaldast á tímabilinu.

Fram kemur í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem gefin var út í febrúar í fyrra að útstreymi gróðurhúsalofttegunda hefur aukist í nær öllum geirum atvinnulífsins, en, „Útstreymi frá sjávarútvegi dróst hins vegar saman um 43%,…“.

Sjávarútvegurinn er því sér á báti, þegar hann er borinn saman við atvinnulífið í heild. Blessunarlega hefur íslenskur sjávarútvegur fjárfest mikið á liðnum árum, bæði í skipum og búnaði á landi og sú fjárfesting var löngu tímabær. Ný skip, sem bæst hafa í flotann, eyða umtalsvert minna af eldsneyti en eldri skip, sem hverfa úr flotanum og eitt nýtt skip getur hæglega veitt jafnmikið og tvö eldri. Það er eftir miklu að slægjast, því talið er að samdráttur í losun olíunotkun í sjávarútvegi geti munið allt að 19% frá því sem hún er núna, fram til ársins 2030.

Það mun hins vegar ekki takast ef fyrirtæki eru ekki í færum að fjárfesta í nýjustu tækni og búnaði. Markmið Íslands og samdráttur í olíunotkun í sjávarútvegi haldast í hendur og það þétt, því 16% af olíunotkun landsins má rekja til sjávarútvegs. Það væri því afar óskynsamlegt að draga úr fjárfestingargetu sjávarútvegsfyrirtækja og draga þar með úr líkunum á því að Ísland geti fyrir sitt leyti staðið við fyrirheit um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Fjárfesting íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja hefur önnur, ekki síðri áhrif. Skip eru hönnuð af Íslendingum og margskonar búnaður um borð í þeim er hannaður og smíðaður af íslenskum fyrirtækjum. Sum þessara fyrirtækja hafa tvöfaldast að stærð á undanförnum árum og flytja nú út þekkingu á hugverkum og handverki. Dæmi um slík fyrirtæki eru Skaginn3X á Akranesi og Valka í Kópavogi, en þau eru mun fleiri. Öll njóta þau þess að vinna í nánu samstarfi við íslenskan sjávarútveg um þróun lausna sem síðar er hægt að flytja út.“

oliunotkun

 

 

Deila: