Aðalfundur samþykkti 70 ályktanir

Deila:

Stjórn Landssambands smábátaeigenda sat ekki auðum höndum á aðalfundi sambandsins, sem fram fór 12. og 13. október síðastliðinn. Alls voru 70 ályktanir samþykktar. Fram kemur á heimasíðu sambandsins að eins og gefur að skilja komi ályktanirnar inn á flest málefni sem snerta smábátaeigendur; strandveiðar, línuívilnun, grásleppu, vigtun sjávarafla, byggðakvótar, helmingur almenns byggðakvóta fari til strandveiða, veiðar með flotvörpu, sjálfskoðun smábáta, humarveiðar, geymslurétt milli ára, eignarhald strandveiðibáta, o. fl.

Enn fremur segir að aðalfundurinn hafi verið vel sóttur og nefndarstörf hafi gengið með miklum ágætum.
Ályktanirnar 70 eru hér:

Strandveiðar

• LS krefst að fest verði í lög að strandveiðileyfi hafi að lágmarki 48 róðrardaga.
• LS ályktar að þar til handfæraveiðar verða gefnar frjálsar skal efla og styrkja strandveiðikerfið
á eftirfarandi hátt:
a) heimild Fiskistofu um stöðvun strandveiða verði numinn úr gildi.
b) tekin verði upp heimild til pörunar á umframafla, þannig að hægt verði að jafna það sem er umfram í róðri í næsta róðri. Heimild þessi nái til 26 kg af óslægðum þorski. Sþ samhl.
c) heimildir strandveiðibáta til löndunar í VS sjóð verði í samræmi við aðrar veiðar.
• Ufsi og karfi verði frjáls sem meðafli við strandveiðar.
• LS skorar á Fiskistofu að sinna betur lögboðnu eftirliti sínu varðandi eignarhald strandveiðibáta, sbr.: „einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið.“
• LS leggur til að ef strandveiðibátur er kominn með 500 kg í uppsafnaðan umframafla þá missi
viðkomandi einn veiðidag.
• LS skorar á stjórnvöld að fella niður sérstakt gjald (svokallaðan bryggjuskatt) á virkjun
veiðileyfa við strandveiðar.
• LS leggur til að sömu reglur gildi um undirmál á strandveiðum og í króka- og aflamarki.
• LS mótmælir harðlega stöðvun strandveiða 11. júlí 2023. Skorar sambandið á stjórnvöld að fara að lögum um að þessar veiðar séu leyfðar í 12 veiðidaga í mánuði í fjóra mánuði, þ.e. maí, júní, júlí og ágúst. Með því verði strandveiðar óháðar aflamarkskerfinu auk þess sem
jafnræði verði náð milli veiðisvæða umhverfis landið. Þannig verða þessar veiðar fyrirsjáanlegar fyrir sjómennn, fiskkaupendur og aðra sem hafa af þeim atvinnu. Sþ samhlj.
• LS krefst þess að svæðaskipting verði afnumin. Til þess að tryggja jafna skiptingu og að sumir geti byrjað að róa frá sinni heimabyggð.
• LS vill að bætt verði við úthlutun í þorski í 250 þús. tonn strax. Það mun auka rými til strandveiða.
• LS leggur til að eigendum strandveiðibáta verði heimilt að ráða afleysingarmann á
strandveiðibát í allt að 10 daga.

Línuívilnun

• LS mótmælir harðlega tillögum starfshópa „Auðlindarinnar okkar“ að fella niður línuívilnun og
skorar á sjávarútvegsráðherra að breyta ákvæði laga um línuívilnun þannig að hún gildi fyrir
alla dagróðrabáta minni en 30 brúttótonn og styttri en 15 metrar. Verði 30% við landbeitningu, 20% við uppstokkun og 10% fyrir vélabáta.

Byggðakvóti

• Áður en byggðakvóta verði úthlutað verði strandveiðum tryggðir 48 dagar.
• LS leggur til að 50% af almenna byggðakvótanum verði bætt inn í strandveiðar.
• Byggðakvótar verði sameinaðir og heimildir nýttar á sama hátt og gildir um ívilnun á afla dagróðrabáta á línu.
• Bátar sem rétt eiga til heimildanna skulu vera minni en 30 brt með mestu lengd að 15 m og
skráðir í viðkomandi byggðarlagi og veiði á króka.

Afladagbók

• LS leggur til að afladagbók verði aflögð á dagróðrabáta enda er afli báts sjáanlegur á vef fiskistofu stuttu eftir löndun og ferilvöktun ávallt aðgengileg.

Línur, svæðalokanir, netaveiðar

• LS krefst þess að ekki verði opnað fyrir dragnóta og netaveiðar fyrir innan línu sem dregin er úr Selskeri norður af Grundarfirði í Selsker austan við Skor á Breiðafirði.
• LS telur að ekki skuli beita reglugerðarlokunum eða skyndilokunum á krókaveiðar.
• LS lýsir stórum áhyggjum vegna þess að búið er að heimila þorskanetaveiðar með 10 tommu möskva og farið er að nota mun dýpri net en áður var. Lagt er til að möskvastærð verði færð aftur niður í 8,5 tommur.
• LS krefst þess að óheimilt verði að nota flotvörpu við veiðar á loðnu og síld í íslenskri landhelgi.
Óumdeilt er að skaðsemi veiðarfærisins er fyrir hendi, t.d. ánetjast gríðarlegur fjöldi grásleppuseiða við veiðarnar. Við löndun er skaðinn skeður auk þess að í aflanum er fullvaxin grásleppa. Bent skal á að við flotvörpuveiðar á sl. fiskveiðiári var magn grásleppu í lönduðum afla alls 58 tonn, rúmlega helmingi meira en úr botntrolli. Jafnframt bendir LS á að skipstjórar loðnuskipa gagnrýna notkun flottrolls við veiðarnar.
• LS krefst þess að togveiðar innan 12 sjómílna verði bannaðar.
Greinargerð: Það var meiningin með útfærslunni 1958. Sjómenn voru mjög ánægðir með það, í þá tíð. Það sem ynnist með þessu væri að veiðar á humri færðust yfir í gildrur. Sandsíli mundi einnig fjölga mjög mikið, vegna þess að hrogn sandsílisins eru marga mánuði að klekjast út. Sjá hér: Náttúrufræðingurinn 1.-2. hefti 2013
Auk afráns og samkeppni um fæðu geta verið aðrar ástæður fyrir bresti í nýliðun sandsílis, svo sem breytingar í umhverfinu. Frá því hrygningu sandsílis lýkur um áramót og þar til hrogn klekjast út vorið eftir getur margt gerst. Hraði eggþroska ræðst fyrst og fremst af sjávarhita, seltu og birtu en sömu þættir ráða einnig tímasetningu klaks. Sú tímasetningin getur verið afdrifarík því seiðin þurfa fljótlega eftir klak að finna hentuga fæðu.
• LS skorar á stjórnvöld að endurskoða heimildir til dragnótaveiða víða við landið. Sþ samhljóða

Rannsóknir á lífríkinu

• LS krefst þess að mælingar Hafrannsóknastofnunar á fiskistofnum og rannsóknaraðferðir verði teknar til gagngerar endurskoðunar. Ljóst er að vísindalegar forsendur veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar í flestum fiskitegundum hafa engan veginn staðist. Skýringar
stofnunarinnar á þessu eru ótrúverðugar og án viðunandi rökstuðnings. LS styður framkomnar hugmyndir um eflingu rannsókna á lífríki hafsins og samspili nytjastofna.
• LS krefst þess að rannsóknir og veiðiráðgjöf verði aðskilin.
• LS skorar á stjórnvöld að auka rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar, sérstaklega ef auka eigi nýtingu þara úr firðinum, og hvaða áhrif hún hafi á lífríki Breiðafjarðar og viðgang fiskiseiða.
• LS leggur til að Hafrannsóknastofnun rannsaki lífvænleika fisks sem sleppt er við handfæra- og línuveiðar.
• LS hvetur umhverfisráðherra, að beita sér fyrir því að gert verði umhverfismat á áhrifum veiðarfæra á sjávarbotn, lífríki sjávar og loftslagsins – kolefnisjöfnun þess.

Grásleppa

• LS leggur til að eftirfarandi breytingar verði gerðar á skipulagi grásleppuveiða:
a. Heimilt verði að taka upp net í brælutíð án þess að dagafjöldi til veiða skerðist.
b. Heimilt verði að hafa tvö grásleppuleyfi á bát.
• LS mótmælir harðlega þeirri aðferðafræði sem viðhöfð hefur verið við útreikninga á meðafla í grásleppunet. Það er að segja uppreikning á fugli og sel úr veiðieftirlitsferðum Fiskistofu.
• LS bendir á að aldrei hafi verið betri grásleppugengd og nú. Þess er krafist að ráðamenn þjóðarinnar hlusti á sjómenn og taki tillit til þeirra sjónarmiða við stjórnun grásleppuveiða.
• LS leggst gegn kvótasetningu á grásleppu.
• LS krefst þess að grásleppuveiðimönnum verði heimilt að sleppa lífvænlegum þorski við grásleppuveiðar. Bent er á að það fyrirkomulag gildir um grásleppu sem kemur í þorskfisknet og einnig um lúðu, hlýra og blágómu í önnur veiðarfæri. Að heimilt verði að setja allan meðafla í VS.
• LS mótmælir harðlega enn og aftur þeirri ákvörðun að loka svæðum að fengsælum miðum við grásleppuveiðar í Faxaflóa vegna æðarvarps.

Krókaaflamark, aflamark o.fl.

• LS Leggur til að fiskveiðiár smábáta verði almanaksárið.
• LS krefst frjálsra færaveiða smábáta á makríl.
• LS leggur til að með aflamarki sem flutt er til báts fylgi réttur til að flytja 15% yfir á næsta fiskveiðiár.
• LS leggur til að menn ávinni sér geymslurétt á kvóta með veiðireynslu.
• LS leggur til að framsal veiðiheimilda fari í gegnum markað sem stjórnað er af opinberum aðilum.
• LS skorar á stjórnvöld að breyta lögum þannig að ufsi veiddur á handfæri teljist ekki til aflamarks.
• LS leggur til að leyfðar verði línuveiðar í svokölluðum keiluhólfum, þ.e. Keiluhólfin í Lónsdýpi, Stokksnesi og Mýrargrunni til að grisja frá stórtæka afræningja humars sem eru í frýju fæði í hinum mörgu keiluhólfum. LS telur rök fyrir verndun keilunnar vera brostin og hvetur til að veiðar verði leyfðar á línu innan þessara hólfa, jafnframt er minnt á að humar veiðist ekki á línu og með þessum hætti er verið að grisja burtu þorsk, keilu, löngu og náskötu auk fleiri tegunda sem eru grimmir afræningjar humars.
• LS hafnar hugmyndum um veiðar á krókaflamarki með netum.
• LS hafnar öllum hugmyndum um sameiningu aflamarks- og krókaaflamarks

Handfæraveiðar

• LS leggur til að handfæraveiðar smábáta verði gefnar frjálsar og undanþegnar hrygningarstoppi.
• LS leggur til að handfæraívilnun verði 30%.
Greinargerð: Áríðandi er, að teknu tilliti þess samfélags sem við byggjum og loftlagsmarkmiða stjórnvalda, að viðurkennt verði að veiðar með handfærum séu vistvænni en aðrar veiðar sem stundaðar eru hér við land. Handfæraveiðar eiga að njóta ívilnunar.
Veiðarnar eru stundaðar á tvinn bátum, þ.e. þeir hafa tvær aflrásir, önnur sem nýtir jarðefnaeldsneyti til keyrslu að og frá veiðistað og hin sem knúin er af orku frá rafgeymum sem nýtt er til veiða. Rafgeymar eru svo hlaðnir á keyrslu og með landrafmagni. Auk þessa eru vindar og hafstraumar mjög mikilvægir þættir við handfæraveiðar og þeim fylgir engin mengun.
• LS leggur til að handfæraveiðar verði undanþegnar hrygningarstoppi.
• LS leggur til opnað verði fyrir handfæraveiðar við og í kringum sæstrenginn til Eyja.

Gildruveiðar

• LS mótmælir harðlega reglugerðabreytingu um fjölda gildra í 2.000 á hvern bát við veiðar á
grjótkrabba.
• LS krefst þess að humarveiðar verði eingöngu heimilar í gildrur á bátum undir 30 tonnum og
15 metrum.

„Auðlindin okkar“

• LS leggur til að skoðað verði að í stað svonefndrar innviðaleiðar í skýrslu starfshópa „Auðlindarinnar okkar“ verði því aflamarki úthlutað með sambærilegum hætti og gert er við viðbótarheimildir í makríl. Leiguverð verði sama upphæð og veiðigjald er í viðkomandi tegund og úthlutun bundin við dagróðrabáta minni en 30 brt enda séu þeir styttri en 15 metrar. Settar verði reglur sem verði með hámarki á hvern aðila.
Greinargerð: Hugsanlega gæti aðgerð af þessum toga ýtt undir nýliðun í greininni og samhliða strandveiðum og grásleppu gert trillu útgerð að heilsárs atvinnu.
• LS fordæmir vinnubrögð „Auðlindarinnar okkar“ sem voru kunngjörð á dögunum.

Ýmislegt

• LS óskar eftir að heimilt verði að koma með lúðu að landi á línu og handfæraveiðum.
• LS gerir kröfu um að aflaregla verði sveigjanleg úr 20% í 25%.
• LS mótmælir eftirliti Fiskistofu þar sem notaðir eru drónar.
• LS leggur til að endurvigtun verði aflögð og allur afli endanlega vigtaður á hafnarvog.
• LS leggur til að skel- og rækjubætur verði endurskoðaðar.
• LS lýsir stuðningi við að sjálfskoðun báta verði að einhverju leyti leyfð. Með því minnki árlegur kostnaður útgerða sem og að lengja líftíma björgunarbáta.
• LS samþykkir að styðja hvalveiðar.
• Aðalfundur LS skorar á framkvæmdastjóra og formann LS að láta framleiða límmiða á bátana sem segi að myndataka af þeim sé óheimil án samþykkis skipstjóra.
Deila: