Tæplega milljón tonn á 18 árum

Deila:

Eins og fram hefur komið hefur Vilhelm Þorsteinsson EA verið seldur til Rússlands og hefur hann lokið hlutverki sínu á Íslandsmiðum. Skipið kom nýtt til landsins árið 2000 og gerði Samherji það út í 18 ár. Fyrsta löndun skipsins var í Fuglafirði í Færeyjum 15. september árið 2000 þegar það kom þangað með 1.300 tonn af kolmunna en síðasta löndunin var í Neskaupstað 14. nóvember sl. þegar á land fóru 570 tonn af frystri norsk-íslenskri síld. Frá þessu er sagt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Samtals fiskaði skipið á þessum 18 árum 968.247 tonn upp úr sjó og var aflinn fyrst og fremst uppsjávarfiskur; síld, loðna, makríll og kolmunni. Alls landaði skipið afla 827 sinnum og var meðalafli í löndun 1.171 tonn og meðalafli úr sjó á hverju ári 53.792 tonn.

Öllum þessum tölulegu upplýsingum hefur Vésteinn Aðalgeirsson safnað og haldið saman en hann var á skipinu frá árinu 2006 sem háseti, vinnslustjóri og matsmaður.

Landaðar afurðir Vilhelms Þorsteinssonar EA á þessum 18 árum voru 896.387 tonn og er þá miðað við söluvigt. Afurðir til mjöl- og lýsisvinnslu námu 607.545 tonnum og frystar afurðir 288.842 tonnum.

Þegar Vésteinn var spurður hve miklum hluta afla skipsins hefði verið landað hjá Síldarvinnslunni stóð ekki á svörum. Vilhelm landaði 427.498 tonnum í Neskaupstað en það eru 48% af afurðunum. Til mjöl- og lýsisvinnslu fóru 263.867 tonn og frystar afurðir voru 163.631 tonn. Á Seyðisfirði landaði skipið 112.099 tonnum eða 12% af lönduðum afurðum. Þar fóru 111.207 tonn í mjöl- og lýsisvinnslu en 892 tonn voru frystar afurðir. Í Helguvík landaði Vilhelm 107.721 tonni sem einnig er 12% af afurðunum. Afurðir til mjöl- og lýsisvinnslu voru 102.094 tonn en frystar afurðir að meðtöldum loðnuhrognum voru 5.627 tonn.

Þegar upp er staðið kemur í ljós að 72% af afurðum Vilhelms Þorsteinssonar fóru á land í Neskaupstað, á Seyðisfirði og í Helguvík og þegar þessar tölur eru skoðaðar ætti engum að koma á óvart að Norðfirðingar hafi litið á Vilhelm sem eitt af heimaskipunum.

 

Deila: