Blængur með góðan afla
Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun með góðan afla. Aflinn er tæplega 500 tonn upp úr sjó að verðmæti 151 milljón. Uppistaðan í aflanum er grálúða og ufsi.
Að sögn Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra í samtali á heimasíðu Síldarvinnslunnar var skipið allan tímann að veiðum á miðunum út af Austur- og Suðausturlandi. Veiðin var almennt góð og reyndar var mokufsaveiði í eina tíu daga. Veðrið var gott allan túrinn að undanskilinni einni smábrælu.
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný á sunnudagskvöld og verður þá farið í annan hefðbundinn túr þar sem áhersla verður lögð á karfa-, ufsa- og grálúðuveiðar.
Ljósmynd Hákon Ernuson.