Nýtt fiskveiðiár í skugga lágs fiskverðs og hárra veiðigjalda

Deila:

Ekki liggur fyrir nú við upphaf nýs fiskveiðiárs hvort einhverjar aflaheimildir brenna inni. Það er að segja að hvorki hafi náðst að veiða upp í heimildir né nýta sér flutning eftirstöðva milli ára, eða koma þeim í „geymslu“. Þær upplýsingar liggja ekki fyrir fyrr en um miðjan mánuðinn eða svo.

Um þessi áramót eru rýmri heimildir til flutnings aflaheimilda milli ára. Flytja má 30% botnfisktegunda milli ára í stað 15%, sem er megin reglan. Skýringin er tveggja mánaða verkfall sjómanna síðastliðinn vetur. Fyrir vikið er heldur meira óveitt um áramótin nú en oft áður.

Þegar rennt er yfir aflastöðulista Fiskistofu má sjá að mikið er enn ónýtt af heimildum til ýsuveiða og aldrei hefur verið meira óveitt af hrumri en um þessi áramót.

Nýliðið fiskveiðiár hefur einkennst af hinu langa verkfalli sjómanna og afar lágu fiskverði. Lágt fiskverð má rekja til styrkingar íslensku krónunnar, sem leitt hefur til þess að verð fyrir fiskafurðir á erlendum mörkuðum er mun lægra í íslenskum krónum en áður. Aflaverðmæti upp úr sjó hefur því lækkað mikið á undanförnum 12 mánuðum og lætur nærri að verðmætið hafi lækkað um 20 til 30% og jafnvel meira eftir tegundum. Tekjur útgerðar og sjómanna skerðast að sama skapi en vinnslan stendur betur því hún fær nú hráefni til vinnslu á lægra verði en áður.

Við upphaf nýs fiskveiðiárs er útlit fyrir rúmar aflaheimildir vegna flutnings milli ára, en staða flestra fiskistofna er sterk um þessar mundir þó óvissa sé með loðnuvertíð. Engar heimildir til loðnuveiða á vetrarvertíð hafa enn verið gefnar út.

Þær blikur eru þó á lofti nú um áramótin að útgerðin stendur frammi fyrir verulegri hækkun veiðigjalds á sama tíma og tekjur hennar dragast saman. Veiðigjaldið sem skal greiðast nú miðast við afkomuna fyrir tveimur árum, sem var mjög góð, meðal annars vegna lágs gengis krónunnar á þeim tíma. Nú er rekstrarumhverfið allt annað.

Annað sem vert er að nefna við áramótin er að líklega hafa aldrei fleiri nýsmíðuð skip komið til landsins eins og á nýliðnu fiskveiðiári nema ef vera skyldi á árunum milli 1970 og 1980, þegar stefnan var „skuttogari í hverja höfn“ og urðu þeir í kringum 100 í lok þess tímabils. Nú eru þeir að minnsta kosti helmingi færri.

Makrílvertíð hefur farið rólega af stað og eru um 100.000 tonn óveidd af kvóta ársins. Makrílkvótinn miðast reyndar ekki við fiskveiðiárið, heldur almanaksárið og því er enn góður tími til stefnu til að ná meiru af makrílnum.

Markaðir fyrir fiskafurðir eru víðast nokkuð góðir, en innflutningsbann Rússa setur strik í reikninginn og sömuleiðis eru erfiðleika við sölu þurrkaðra afurða til Nígeríu vegna bágs efnahagsástands þar.

Deila: