Kaupin á Sulmaq gengin í gegn

Deila:

Marel tilkynnti 26. júlí síðastliðinn að fyrirtækið hefði undirritað kaup á Sulmaq og að kaupin skyldu ganga formlega í gegn á þriðja ársfjórðungi 2017 að uppfylltum hefðbundnum skilyrðum. Skilyrðin eru nú uppfyllt og gengu kaupin formlega í gegn í dag, 31. ágúst 2017.

sulmaq-logo

Með kaupum á Sulmaq styrkir Marel stöðu sína enn frekar sem leiðandi framleiðandi á háþróuðum heildarlausnum til vinnslu á kjúklingi, kjöti og fiski. Marel er með þessu skrefi betur í stakk búið fyrir frekari vöxt á þessu mikilvæga markaðssvæði sem Suður-Ameríka er. Brasilía ein og sér er annar stærsti framleiðandi nautakjöts á heimsvísu og þriðji stærsti framleiðandi kjúklingakjöts.

Sulmaq verður fyrst um sinn rekið sem sjálfstæð eining með stuðningi Marel á meðan fyrirtækin munu í sameiningu vinna að áætlun um hvernig kraftarnir munu nýtast sem best til að uppfylla þarfir viðskiptavina og markaðarins til framtíðar. Stjórnendur Sulmaq: Fernando Roos, Henrique Roos og Julio Roos gegna mikilvægu hlutverki í framtíðaruppbyggingu Marel og munu þeir áfram gegna sínum störfum.

Marel og Sulmaq munu í sameiningu vinna að framþróun kjötframleiðslu, og einblína á hvernig þeir geti hjálpað viðskiptavinum sínum að framleiða öruggan og hagkvæman mat á sjálfbæran hátt.

 

Deila: