Góð makrílveiði í Smugunni
Beitir NK hefur verið að makrílveiðum í Smugunni síðustu daga en er nú á landleið til Neskaupstaðar með 800 tonn. Er hann væntanlegur síðdegis en þá lýkur vinnslu á síld sem verið er að landa úr Bjarna Ólafssyni AK.
Börkur NK hélt til veiða í Smugunni sl. þriðjudagskvöld og er nú á landleið með 1000 tonn af makríl. Heimasíða Síldarvinnslunnar sló á þráðinn til Hjörvars Hjálmarssonar skipstjóra á Berki.
„Það var mjög góð veiði þegar við komum í Smuguna og við fengum þessi 1000 tonn í fjórum stuttum holum. Við stoppuðum í sólarhring á miðunum en vorum einungis 18 tíma að veiðum. Það var töluvert að sjá þarna og skipin voru að gera það gott seinni partinn í gær og í gærkvöldi. Áður en við komum þarna hafði verið bræluskítur, en þegar brælunni lauk fannst fljótlega töluvert af fiski.
Mér líst vel á framhaldið á þessu. Það ætti að vera unnt að veiða þarna töluvert og eins er ég sannfærður um að það verði veiði á Austfjarðamiðum þegar makríllinn gengur að vestan. Ég neita að trúa öðru. Það er vissulega talsvert langt að sækja aflann í Smuguna, en við vorum að veiða 350 mílur austnorðaustur af Norðfjarðarhorni í þessum túr. Það er í alla staði svo miklu þægilegra og betra að veiða á heimamiðum,“ sagði Hjörvar.
Ljósmynd Hákon Ernuson.