Botndýraskráningar í haustralli

Deila:

Á málstofu Hafrannsóknastofnunar á morgun, þann 18. maí flytur Steinunn Hilma Ólafsdóttir sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun erindi sem nefnist: Botndýraskráningar í haustralli Hafrannsóknastofnunar.

Málstofa hefst kl. 12.30 í fyrirlestrarsal á fyrstu hæð að Skúlagötu 4.

Ágrip
Ábyrgar fiskveiðar og sjálfbær nýting stofna eru hugtök sem við viljum kenna okkur við. Hér á landi höfum við gott fiskveiðikerfi, stofnstærðarannsóknir á nytjastofnum eru framkvæmdar á vísindalegan hátt og studdar af langtíma gagnaseríum. En auknar kröfur markaðsaðila á vottun nytjastofna, kallar á víðtækari þekkingu á vistkerfinu. Verndun viðkvæmra búsvæða eða tegunda er mikilvægur liður í góðri umgengni um auðlindina og við sjálfbæra nýtingu. Grundvöllur til að taka ákvarðanir varðandi þetta er að skilgreina hvaða búsvæði eru til, hversu viðkvæm þau eru og hvers vegna, og hvað hægt er að gera til að vernda þau.  Enn skortir á nægilega þekkingu á  tegundasamsetningu og lífmassa botndýra á Íslandsmiðum, svo hægt sé að meta hvernig þau standast veiðiálag eða hvaða svæði eru viðkvæmari en önnur.

Langtímavöktun á botndýralífi hefur aldrei verið haldið úti, og engar langtímaseríur til. Hafrannsóknastofnun hefur því bætt við skráningu á botndýrum í tengslum við árlegt haustrall stofnunarinnar, en slík skráning gæti verið vísir að slíkri vöktun. Sambærilegu verklagi verður beitt og þróað hefur verið af Norðmönnum og Rússum meðfram mælingum á nytjastofnum í Barentshafi, og Grænlendingum við mælingar á rækjustofnum. Með því að greina til tegunda og vigta öll botndýr sem koma um borð við stofnmælingar á fiskistofnum, verður hægt að afla gagna um útbreiðslu og tegundafjölbreytni botndýra við Ísland, að minnsta kosti þeirra sem koma upp með botntrolli.  Slíkar upplýsingar hafa ótvírætt gildi við að veita  svör við sífellt áleitnari spurningum markaðsaðila um vistvænar fiskveiðar á Íslandsmiðum, þar sem áhersla er á kortlagningu viðkvæmra tegunda og búsvæða.

Skráning botndýra sem koma upp sem meðafli í Stofnmælingu botnfiska að hausti hófst 2015 og hefur AVS veitt styrk í verkefnið fyrir 2015-2017.

 

Deila: