Skattlagðir vegna viðskipta með kvóta

Deila:

Útgerðin Þorbjörn í Grindavík verður að greiða áttatíu milljónir króna í skatt vegna kvótaviðskipta fyrirtækisins við dótturfélag sitt. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi að þetta væru sýndarviðskipti til að komast hjá því að greiða skatta.

Útgerðarfélagið Þorbjörn keypti síðla árs 2006 fyrirtækið Ævarr fyrir 385 milljónir króna og breytti nafni þessa nýja dótturfélags síns í Pál Ingólfsson. Næsta skref var að Þorbjörn keypti kvóta nýja dótturfélagsins á 385 milljónir gegn vaxtalausu láni sem átti að endurgreiða tveimur árum síðar.

Dótturfélagið fór fram á að skattlagningu söluhagnaðar yrði frestað, í samræmi við lög. Samkvæmt því félli skattlagning niður ef félagið keypti kvóta á ný fyrir sömu upphæð innan tveggja ára. Það gerðist einmitt því dótturfélagið Páll Ingólfsson keypti kvótann aftur af móðurfélaginu Þorbirni árið 2008, fyrir 385 milljónir króna. Rúmu ári síðar voru félögin sameinuð. Í millitíðinni hafði skip í eigu Þorbjörns veitt upp í kvótann án þess að dótturfélagið fengið nokkra greiðslu fyrir.

Ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd töldu að kvótaviðskipti Þorbjörns og dótturfélagsins bæru mikinn keim málamyndagjörnings og því ætti útgerðin að greiða skatt af söluhagnaði og álag að auki fyrir að hafa ekki gert það í upphafi. Forsvarsmenn Þorbjarnar kærðu málið til dómstóla til að fá ákvörðun yfirskattanefndar hnekkt. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ríkinu í vil og sagði Þorbjörn hafa átt í sýndarviðskiptum við dótturfélagið til að geta hagnýtt sér heimild til að fresta skattlagningu söluhagnaðar. Því hafnaði dómstóllinn öllum kröfum fyrirtækisins.

Frá þessu var greint á ruv.is
 

Deila: