Öryggisvörur í fyrirrúmi hjá Dynjanda

Deila:

Dynjandi ehf. verður með básinn A-5 á sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll. Þorsteinn Austri Björnsson, sölustjóri Dynjanda segir að þar muni starfsmenn fyrirtækisins standa vaktina og sýna gestum og gangandi allt það nýjasta sem Dynjandi hefur að bjóða í búnaði sem stuðlar að auknu öryggi fólks, hvort sem er á sjó eða landi. Slys gera ekki boð á undan sér

„Við verðum m.a. með gott úrval af háþrýstidælum frá Annovi Reverberi á básnum okkar og verður sérfræðingur frá þeim með okkur til að veita viðskiptavinum okkar ráðgjöf. Þetta er gamalgróið ítalskt fyrirtæki með mikið úrval af dælum og fylgihlutum,“ segir Þorsteinn Austri. Þorsteinn Austri segir að vöruflóra Dynjanda nái til flest allra geira atvinnulífsins og hafi sjávarútvegurinn verið að koma sterkur inn.

„Við seljum mikið af persónuhlífum fyrir sjómenn, t.d. hlífðarfatnað, hjálma og skó en einnig gas og súrefnismæla, öryggisblakkir o. fl. Slysin gera ekki boð á undan sér og um borð í skipum geta skjótt skapast stórhættulegar aðstæður og skynsamlegt að hafa gert ráðstafanir sem geta bjargað mannslífum,“ segir Þorsteinn Austri.

Brautryðjandi á sviði öryggismála

Fyrirtækið Dynjandi ehf. var stofnað árið 1954 og er brautryðjandi á sviði öryggismála á vinnustöðum hér á landi. Þegar litið er yfir úrvalið í verslun Dynjanda eru þar margir vöruflokkar í boði. Alls kyns vinnufatnað er hægt að fá, s.s. öryggisskó, hjálma, samfestinga, hanska, boli, vinnuskyrtur og smíðavesti. Öryggisvörur hvers konar eru hins vegar í fyrirrúmi, s.s. augn- og andlitshlífar, eyrnatappar, ryk- og gasgrímur, heyrnahlífar og gas- og súrefnismælar. Einnig býður Dynjandi úrval fallvarnarbúnaðar s.s. belti, líf- og öryggislínur og alls kyns festi- og tengibúnað. „Þá höfum við gott úrval af vélum og tækjum og má þar nefna djúpvatnsdælur, brunndælur, rafstöðvar, ryk- og vatnssugur, gufugildrur og háþrýstidælur svo eitthvað sé nefnt,“ segir Þorsteinn Austri og býður gesti velkomna í bás A-5 á sjávarútvegssýningunni.

Deila: