Íslensk samvinna skilar landvinningum

Deila:

Íslensku tæknifyrirtækin Skaginn 3X ásamt Frost og Rafeyri hafa undirritað samning um uppsetningu fullkominnar uppsjávarverksmiðju á Kurileyjum á austurströnd Rússlands. Verksmiðjan verður búin leiðandi tækni til að flokka, pakka og frysta 900 tonn af uppsjávarfiski á sólarhring.

Skaginn Ingolfur (left) and Alexander (right) shake hands_preview

Afskekkt og friðsæl eyja 

Verksmiðjan verður staðsett á Shikotaneyju sem er hluti af Kurileyjaklasanum suður af Shakalin í Austur-Rússlandi.  „Verksmiðjan verður gríðarleg lyftistöng fyrir mannlífið á eyjunni og mun skapa þar mikilvæg störf,“segir Alexander Verkhovksy eigandi Gidrostroy og bætir við „að eftir að hafa skoðað verksmiðjur víða um heim hafi verið augljóst að skipta við þessi íslensku félög.“

Undir hatti Knarr Maritime 

Íslensku félögin þrjú hafa áður unnið saman í skipum og sett upp fjölda verksmiðja, „Það er að sýna sig að Knarr er að nýtast okkur gríðarlega vel og er í raun að ryðja brautina inn á þessa markaði,“ segir Guðmundur Hannesson sölustjóri hjá Frost.

Mikilvægt skref inn á Kyrrahafs markaðinn 

Uppsjávarfiskur, ekki síst sardinella, er í miklum vexti á svæðinu, þannig að velgengni verkefnisins er mikilvæg. „Verkefnið er stórt og mikilvægt fyrir bæði Gidrostroy og okkur, en þetta byrjaði allt síðasta vor þegar við seldum og afhentum kerfi þar sem okkar lausn innihélt meðal annars flokkara frá íslenskum samstarfsaðila okkar, Style,“ segir Ingólfur Árnason framkvæmdastjóri Skagans 3X og bætir við „Reynslan af því verkefni var einfaldlega þannig að báða aðila langaði að vinna meira saman.“

Betri meðferð afla 

Í fréttatilkynningu kemur fram að verksmiðjan verði rússneskt flaggskip fyrir alla aðila samningsins og að vonir standi til að bætt kælikeðja og frystitækni sem á engan sinn líka komi til með að auka gæði afurðanna og um leið eftirspurn.

Deila: