Fyrrum íslenskt skip á ólöglegum snjókrabbaveiðum

Deila:

Norska strandgæslan tók í gærmorgun frystiskipið Senator fyrir ólöglegar veiðar á snjókrabba við Svalbarða. Skipið er skráð í Riga í Lettalandi og mun vera í eigu Rússa. Það á sér íslenska sögu, því það var á tímabili í eigu Íslendinga.
Skipið er smíðað 1968 og hét fyrst Ottar Birting, síðan Birting og þá Safco Endeavour. Þá lá leiðin til Íslands og var það um miðjan síðasta áratug síðustu aldar gert út á veiðar í Barentshafi og var þá í eigu Hornfirðinga með tengsl við Fáskrúðsfjörð. Það hét þá Ottar Birting. 1995 var skipið keypt til Dalvíkur og hét þá Dalborg EA og var gert út á rækju á Flæmska hattinum. Næst var skipið skráð í Færeyjum undir nafninu Prestland, en var enn í eigu Dalvíkinga um tíma. Síðan komst skipið í eigu annarra Íslendinga og bar þá nafnið Otto, uns það var selt til Rússa og fékk nafnið Senator.

Frá töku skipsins er sagt á heimasíðu norskra útgerðarmanna, fiskebat.no, þar sem kemur fram að erlend skip hafi ekki leyfi til veiða á snjókrabba við Svalbarða og á landgrunni Noregs.

Audun Maråk, framkvæmdastjóri samtakanna er ánægður með töku skipsins og segir mikilvægt að Norðmenn haldi fast við yfirráð sín yfir Svalbarðasvæðinu. Evrópusambandið hafi áður reynt að hasla sér þar völl en í fyrra hafi annað skip frá Eystrasaltslöndunum verið tekið fyrir ólöglegar veiðar við Svalbarða.

 

 

 

 

Deila: