Allt í hnút

Deila:

Samninganefndir sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi horfa báðar til sjávarútvegsráðherra um lausn á sjómannadeilunni. Ráðherrann, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, áréttaði þó í útvarpsviðtali í gær að hún væri mótfallin sértækum aðgerðum, m.a. niðurgreiðslu launa fyrir útgerðarmenn. Farið er yfir stöðuna í Morgunblaðinu í dag.

Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, sagði hins vegar í samtali við mbl.is að sjómenn litu svo á að ekki væri um sértækar aðgerðir að ræða, heldur að fæðispeningar sjómanna yrðu skattfrjálsir.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins snúa lausir endar samningaviðræðna að fæðis- og klæðispeningum og fjarskiptakostnaði, auk þess sem togast er á um kostnaðarhlutdeild. Grunnurinn að samningnum var hins vegar lagður í nóvember á síðasta ári.

Drógu línuna í sandinn

Sjómenn gerðu SFS lokatilboð í fyrradag. Því svaraði SFS með gagntilboði síðdegis í gær, sem samninganefnd sjómanna hafnaði um hæl. Valmundur segir ástæðuna vera þá að um óumsemjanlegt lokatilboð hafi verið að ræða. „Við drógum línuna í sandinn og þeir vissu það alveg. Þegar línan er dregin fara menn ekki aftur til baka,“ segir Valmundur og ítrekar að samninganefndir allra sjómannafélaganna; Sjómannasambands Íslands, Sjómannafélags Íslands og Sjómannafélags Grindavíkur, séu samstíga í málinu. „Við höfnuðum þessu gagntilboði allir,“ segir Valmundur.

Hann segir að ef ráðamenn kæmu að málinu með áðurnefndum hætti væru líkur á því að það myndi liðka fyrir og það sé einn af lyklunum að lausn. „Miðað við yfirlýsingar ráðamanna er ekkert víst að það náist. Þá er málið bara ennþá í hnút og krafan á útgerðina meiri þegar kemur að uppbótum fyrir sjómannaafsláttinn,“ segir Valmundur. Að hans sögn munu samninganefndir sjómanna hittast í dag til að ráða ráðum sínum.

Snarleg höfnun kom á óvart

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS, segir að það hafi komið samtökunum á óvart hve snögglega gagntilboðinu var hafnað. Spurð hvort samningar væru í höfn ef ríkið kæmi að borðinu með áðurnefndum hætti segir Heiðrún svo vera. „Við teljum allar líkur á því að við gætum náð saman um önnur atriði,“ segir Heiðrún. Það sé þó hlutverk sjómanna að þrýsta á ráðherra í málinu.

Spurð hvort mikill munur sé á tilboði SFS og tilboðinu sem sjómenn lögðu fram í fyrradag segir Heiðrún svo ekki vera. „Miðað við þær hugmyndir sem reifaðar voru fyrir helgi hjá ríkissáttasemjara og tilboðið sem kom frá sjómönnum í gær var þetta tilboð frá SFS nokkurs konar millileið,“ segir Heiðrún.

Deila: