Hampiðjan í fiskeldisþjónustu um allan heim

Deila:

Þjónusta við fiskeldi er nú orðin um 27% af heildarrekstri samstæðu Hampiðjunnar og nær til fiskeldisfyrirtækja víða um heim þó umfangið sé mest í fiskeldislöndum við Norður-Atlantshaf. Þessi þáttur starfseminnar jókst verulega árið 2016 þegar Hampiðjan keypti færeyska fyrirtækið Vónin og síðan þá hefur hún stöðugt orðið fjölþættari. Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar, segir einsýnt að fiskeldisgreinin verði í vexti á komandi árum á Íslandi og í reynd um allan heim og þeim tækifærum muni Hampiðjan fylgja eftir.

Fiskeldisþjónusta aukin með kaupum á Vónin í Færeyjum

Fyrirtækið Vónin er með umfangsmikla þjónustu við fiskeldi í Færeyjum og þjónustustöðin er staðsett í Norðskála þar sem eyjarnar Straumey og Austurey mætast. Þjónustan stendur á gömlum merg og byggðist upp samhliða uppgangi fiskeldisins í Færeyjum. Vónin hefur byggt upp góða aðstöðu í Færeyjum og þjónustar þar stóra aðila í fiskeldi, t.d. Mowi, Luna og Bakkafrost. Fyrir kaup Hampiðjunnar á Vónin árið 2016 hafði hún keypt veiðarfæra- og fiskeldisþjónustufyrirtækið Refa í Noregi sem nú ber nafnið Vónin Refa en fyrirtækið er með starfsemi sína víða í Norður-Noregi. Fiskeldisþjónustan er staðsett í Finnsnesi þar sem fyrirtækið er með 70 rúmmetra pokaþvottavél sem er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum. Þar eru netin þvegin og þurrkuð en viðgerðir og önnur meðhöndlun fiskeldispokanna er í Rossvoll sem er aðeins austar. „Uppbyggingin í Rossvoll hefur verið mikil síðustu ár. Húsnæði þess er í dag um 8.500 fermetrar að stærð og þar er t.d.hægt að meðhöndla lúsapils sem eru hlífðardúkar á kvíapoka til að verjast lús og marglyttum. Þar erum við einnig með stórt og vandað netaverkstæði með öllum búnaði, aðstöðu til að bera gróðurvarnaíburð í eldispokana og við bjóðum upp á geymslu eldispoka fyrir viðskiptavini ef á þarf að halda,“ segir Hjörtur. Samhliða þessari uppbyggingu hefur verið lögð áhersla á stækkun þjónustunnar í Norðskála í Færeyjum þar sem bætt hefur verið við stórum vel búnum vinnusal til að gera við fiskeldiskvíar, aðstaða er einnig komin komin upp til gróðurvarnaíburðar og fyrir skömmu var sett upp ný 60 rúmmetra pokaþvottavél.

Nánar er fjallað um starfsemi Hampiðjunnar og þjónustu við fiskeldi í nýjasta tölublaði af Sóknarfæri.

Deila: