Rekjanleikinn skiptir öllu máli

Deila:

Við trúum því að hægt sé að búa til verðmætari vöru með því að svara spurningum sístækkandi hóps neytenda um það hvaðan fiskurinn kemur og hvort veiðarnar séu stundaðar með sjálfbærum hætti. Í þessu skyni höfum við þróað notendavæna netlausn sem gerir fólki kleift að nálgast allar upplýsingar og tímalínu allt frá því fiskurinn er dreginn úr sjó þar til hann er kominn í kæliborð verslunar eða veitingahúss. Það er nefnilega ekki nóg að segja kröfuhörðum neytendum að fiskurinn sé frá Íslandi og þess vegna fyrsta flokks heldur þarf að vera hægt að sýna fram á það með óyggjandi hætti,“ segir Heiða Kristín Helgadóttir framkvæmdastjóri Niceland Seafood í samtali við Sóknarfæri, sem kom út í desember. Ritform gefur blaðið út.

Niceland Seafood hlaut á dögunum Svifölduna, hvatningarverðlaun Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM 2019. Verðlaunin hreppti Niceland fyrir nýstárlegar leiðir í sölu og markaðssetningu á íslenskum fiski en fyrirtækið hefur undanfarið eitt og hálft ár markaðssett ferskan fisk af Íslandsmiðum í nokkrum fylkjum Bandaríkjanna með góð um árangri. Félagið rekur söluskrifstofu í Denver í Coloradofylki.

Við spyrjum Heiðu Kristínu fyrst út í tildrög þessa verkefnis.

Samstarf þriggja fyrirtækja

„Niceland er sprottið upp úr samstarfi þriggja fyrirtækja. Ég og Oliver Luckett stofnuðum á sínum tíma fyrirtækið Efni sem fæst við að þróa nýjar markaðs- og söluleiðir fyrir íslenskar vörur og hugvit sem eru að framleiða hágæða vörur og þjónustu. Ein hugmyndin var að búa til verkefnið Niceland sem myndi fara nýjar leiðir í sölu og markaðssetningu á íslenskum fiski í Bandaríkjunum. Markmiðið var að búa til sterkt vörumerki sem aflaði sér alþjóðlegs trausts meðal neytenda. Aukinn kraftur færðist í þessa hugmynd þegar Eyrir Invest gerðist meðeigandi í Efni en það félag hefur mikla reynslu af stuðningi við nýsköpunarfyrirtæki. Í framhaldi af því tengdumst við fyrirtækinu Nastar sem er útflutningsfyrirtæki á fiskmeti en í gegnum það fáum við fiskafurðir frá sjálfbærum og traustum aðilum alls staðar að af landinu. Þessi þrjú fyrirtæki koma úr ólíkum áttum en búa öll yfir reynslu og hugviti sem við trúum að skapi þann árangur sem við sækjumst eftir.“

Upplýsingar í farsímann

„Sannleikurinn er sá að á Íslandi búum við að mörgu leyti við einstök skilyrði hvað varðar upplýsingar um okkar fiskveiðar. Fyrir liggur gríðarlegt samsafn gagna frá eftirlits- og vísindastofnunum eins og Hafrannsóknastofnun og Fiskistofu en einnig frá útgerðum og flutningsaðilum. Þessi gögn tökum við og matreiðum þannig að þau séu neytendavæn og birtum, en í þeim er m.a. hægt að sjá hvernig Íslendingar hafa byggt upp sína fiskistofna og gert veiðarnar sjálfbærar, við sjáum hvar og hvenær fiskurinn er veiddur og hvernig hann er fluttur á markaði. Þá eru líka til upplýsingar um næringargildi og ferskleika auk uppskrifta að fiskiréttum. Þannig má áfram telja. Öllu þessu söfnum við saman og gefum neytandanum í versluninni eða á veitingahúsinu tækifæri til að nálgast kjarna upplýsinganna á myndrænan hátt með því að skanna QR kóðann á umbúðunum eða á matseðlinum með símanum sínum. Þetta er hluti af okkar markaðssetningu ásamt hefðbundnari leiðum í gegnum auglýsingar á samfélagsmiðlum og prentmiðlum auk samvinnuverkefna í kynningarstarfi við okkar samstarfsaðila víða um Bandaríkin,“ segir Heiða Kristín.

Erum á góðum stað

Heiða Kristín segir að nýstárleg markaðssetning af þessu tagi taki tíma á markaði þar sem grimm samkeppni ríki. „Miðað við það að nú er rétt rúmt ár frá því við fórum að keyra þetta prógramm í Bandaríkjunum þá erum við sátt við árangurinn og teljum okkur vera á góðri leið í dag. En verkefnið er rétt að byrja og við ætlum okkur að ná langtum lengra. Við erum stöðugt að bæta við verslunum og veitingahúsum og styrkja sambandið við okkar samstarfsaðila sem selja fisk undir merki Niceland. Okkar verkefni er svo að útvega gæðafisk og tryggja áreiðanlega afhendingu. Við veljum okkar samstarfsaðila af kostgæfni og gerum ríkar kröfur til þeirra því hugmyndin er jú að selja íslenskan fisk sem hágæða vöru fyrir sem hæst verð.“

Heiða Kristín bætir við: „Sjávarafurðirnar eru auðvitað okkar mikilvægasta útflutningsvara og við búum yfir mikilli reynslu þegar kemur að veiðum og vinnslu en það eru tækifæri til að gera betur í flutningi og markaðssetningu erlendis og í raun nauðsynlegt ef við eigum að geta keppt við aðrar sjávarútvegsþjóðir og viðhaldið lífsgæðum á Íslandi til framtíðar.“

Deila: