9.000 tonn af þorski komin úr Barentshafinu í ár

Deila:

Þorskafli íslenskra fiskiskipa í Barentshafi er nú orðinn um um 9.000 tonn. Kvótinn innan norsku lögsögunnar hefur verið kláraður og varð aflinn þar alls 6.860 tonn. Afli innan rússnesku lögsögunnar er um 2.150 tonn og standa þá eftir heimildir til veiða á um 2.150 tonnum. Auk þess geta útgerðirnar leigt til sín heimildir innan rússnesku lögsögunnar.

Átta skip hafa veitt innan norsku lögsögunnar í Barentshafi í ár, en um 20 skip eru þar með veiðiheimildir og svipaður fjöldi er með heimildir innan rússnesku lögsögunnar. Aðeins þrjú skip hafa farið yfir í rússnesku lögsöguna í ár. Mikið er um flutning veiðiheimilda milli skipa til að gera veiðarnar hagkvæmari enda langt þangað að sækja. Gera má ráð fyrir að kvótinn innan lögsögu Rússa verði kláraður síðar í sumar eða haust.

Kleifaberg RE hefur komið með mestan afla úr Barentshafinu það sem af er ári. Aflinn er um 2.200 tonn og skiptist nokkuð jafnt milli beggja lögsagnanna. Næst kemur Oddeyrin EA með 1.719 tonn, þar af 570 úr rússnesku lögsögunni, þá kemur Þerney RE með 1.556 tonn, allt úr norsku lögsögunni og loks er það Sigurbjörg ÓF með 1.518 tonn, þar af 540 tonn frá Rússum.

Næstu skip eru Arnar HU með 790 tonn, Snæfell EA með 441 tonn, Gnúpur GK með 395 tonn og Sólbakur EA með 355 tonn, en þessi skip eru einungis með afla úr norsku lögsögunni.

AF þeim 2.150 tonnum sem eru óveidd úr rússnesku lögsögunni eru 863 tonn skráð á Þerney, 498 tonn á Arnar, 487 á Snæfell og 300 tonn á Örfirisey RE.

 

 

Deila: