Góðir samningar fyrir fiskverkafólk

Deila:

Hrund Karlsdóttir, formaður Verkalýðs-og sjómannafélags Bolungavíkur segir að nýgerðir kjarasamningar Starfsgreinasambands Íslands séu mjög góðir fyrir fiskvinnslufólk. Bæði kauptaxtar og bónusákvæði taka umtalsverðum hækkunum og það skili fiskvinnslufólki kjarabótum. Hún segir að stærstur hluti félagsmanna hennar séu að vinna eftir þeim kjarasamningum.

Hrund Karlsdóttir

Hrund Karlsdóttir segir að kjarasamningarnir verði kynntir á næstu dögum og svo fari fram atkvæðagreiðsla meðal félagsmanna um þá.

Kauptaxtar hækka frá 1. nóvember 2022 um að lágmarki 35.000 kr. Að auki felur samningurinn í sér lagfæringu á launatöflunni, sem gerir það að verkum að hækkun getur orðið allt að 52.000 kr. á mánuði. Desember- og orlofsuppbætur taka jafnframt hækkunum. Desemberuppbót á árinu 2023 verður 103.000 kr. og orlofsuppbót verður 56.000 kr. á orlofsárinu sem hefst 1. maí 2023.

Kjaratengdir liðir samningsins hækka um 5% frá 1. nóvember og þá hækka bónusar og akkorð í fiskvinnslu um 8% sem mun skila fiskvinnslufólki á bilinu 6.000 – 34.000 kr. hækkun á mánuði.

Auk Verkalýðs- og sjómannafélags Bolungavíkur eiga Verkalýðsfélag Vestfirðinga og 15 önnur félög aðild að kjarasamningunum.

 

Deila: