Samherji eykur hlut sinn í Nergård

Deila:

Samherji hefur aukið hlut sinn í norska sjávarútvegsfyrirtækinu Nergård í 39,9%. Á sama tíma hefur norska samsteypan Norsk Sjömat aukið sinn hlut í fyrirtækinu í 60,1%. Markmið félaganna er að fjárfesta í vinnslu, framleiðslu og þróun á nýjum hvítfiskafurðum í Norður Noregi.

Nergård er fjölþætt sjávarútvegsfyrirtæki og nær starfsemin yfir veiðar, vinnslu og sölu afurðanna. Félagið er staðsett í Norður-Noregi og er þar næst stærst á sínu sviði. Starfsmenn eru 470 og búa 92% þeirra í Norður-Noregi. Norsk Sjömat hefur átt hlut í félaginu frá 2010 með 42% hlutdeild fyrir kaupin nú. Samherji keypti sig inn í félagið 2014 og þá með 22% hlut.

Forstjóri Norsk Sjömat, Per Magne Grøndahl, segir í fréttatilkynningu þeir vilji þróa Nergård úr því að afla hráefnis og framleiða hálfunnar afurðir í að verða framleiðandi fullunninna afurða. Stór hluti þeirrar framleiðslu verði unninn í Norður-Noregi. Það sé skoðun þeirra að vinna og framleiða fiskafurðir svo nálægt fiskimiðunum sé mögulegur lykill að því að bjóða bestu sjávarafurðir í heimi.

„Nergard er fyrirtæki í farabroddi í Norður-Noregi og við hlökkum til þess að gera gott fyrirtæki enn betra í samvinnu við Norsk Sjömat. Við trúum því að þekking Samherja og stefna muni hjálpa Nergård til að verða fjölþættara fyrirtæki með sérstaka áherslu á virðismeiri afurðir og sjálfbærni. Við trúum því að þessi breyting færi Nergård nær því markmiði að færa viðskiptavinum sínum fisk frá veiðum á disk,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja í sömu fréttatilkynningu.

Deila: