Mestur byggðakvóti til Djúpavogs?

Deila:

Djúpivogur mun fá mestan byggðakvóta allra byggðarlaga á næsta fiskveiðiári, verði tillögur starfshóps sjávarútvegsráðherra um breytingar á úthlutun byggðakvóta að veruleika óbreytta. Til Djúpavogs koma þá 800 tonn, sem reyndar er samdráttur um 263 tonn miðað við núverandi úthlutun almenns byggðakvóta kvóta Byggðastofnunar.

Starfshópurinn leggur ýmsa þætti til grundvallar tillögum sínum að breyttri úthlutun en mannfjöldaþróun vegur þar þungt og sömuleiðis er tekið mið af breytingum á aflaheimildum sem hverjum stað tengjast. Miðað er við árin 1980 til 1983, sem eru viðmiðunarár upphaflegrar úthlutunar og árin 2013 til 2016. Í flestum tilfellum fá staðir þar sem fólki hefur fjölgað ekki úthlutun og svo öfugt. Það sama á við um tilfærslur aflaheimilda.

Það er þó ekki algilt og sem dæmi um það hefur íbúum Siglufjarðar fækkað um 796 á viðmiðunartímabilinu, en þangað fer enginn byggðakvóti.

Samkvæmt tillögunum kemur næst mestur kvóti til Flateyrar, 767 tonn. Raufarhöfn er síðan í þriðja sæti með 756. Á Flateyri dregst kvótinn saman um 33 tonn en eykst um 122 tonn á Raufarhöfn.  Stabbinn af aflaheimildunum fer á norðvestur- og norðausturhluta landsins: 6.430 tonn fara á norðvestursvæðið, sem nær frá Akranesi, sem reyndar fær ekkert, og norður til Ólafsfjarðar. 6.312 fara á norðaustursvæðið sem nær frá Akureyri, sem ekkert fær, til Djúpavogs. Á suðursvæðið fara svo 213 tonn sem fara í Hafnir og Stokkseyri og Eyrarbakka.

Deila: