Mestu landað í Vestmannaeyjum

Deila:

Mestu af loðnu á vertíðinni hefur verið landað í Vestmannaeyjum, tæplega 67.000 tonnum. Næst koma Neskaupstaður með ríflega 58.000 tonn og Seyðisfjörður með tæplega 51.000 tonn. Loðnu hefur verið landað í 10 höfnum innan lands en smávegis hefur farið til Noregs og Færeyja.

Aflinn nú, samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu, er 375.097 tonn. Leyfilegur heildarafli er 662.064 tonn eftir sérstakar úthlutanir, sem eru 30.000 tonn. Þau hefur Eskja keypt af Fiskistofu í skiptum fyrir þorsk. Þá eru óveidd 286.967 tonn miðað við aflastöðulistann. Ekki hefur verið gefinn út endanlegur heildarkvóti eftir að Hafró lagði til lækkun um 34.500 tonn. Ekki liggur endanlega fyrir hvað mikið er eftir af kvóta Norðmanna, en þeir hafa nú lokið veiðum. Það sem þeir skilja eftir kemur í hlut íslenskra útgerða í samræmi við aflahlutdeild þeirra.

Fjögur skip hafa nú veitt meira en 20.000 tonn. Aflahæsta skipið er Börkur NK með 26.381 tonn. Næst kemur Vilhelm Þorsteinsson EA með 25.796 tonn, Beitir NK með 24.265 tonn og Heimaey VE með 21.866 tonn.

Deila: