„Erum vel í stakk búin að tvöfalda hrognaframleiðsluna“

Deila:

„Á 10 árum hefur sala hrognaframleiðsla okkar hér á Íslandi þrefaldast og það skýrist einfaldlega af því að áhugi á laxeldi er stöðugt vaxandi í heiminum. Þetta er eftirsótt vara og við höfum getað svarað kallinu frá eldisframleiðendum,“ segir Jónas Jónasson, framleiðslustjóri hjá Benchmark Genetics á Íslandi, Noregi og í Síle, þar sem segja má að grunnurinn sé lagður í laxeldinu á Íslandi og víða um heim með framleiðslu laxahrogna. Forsögu fyrirtækisins má rekja aftur til ársins 2001 þegar fyrirtækið Stofnfiskur hf. var stofnað um hrognaframleiðslu en frá árinu 2014 hefur starfsemin verið undir merkjum móðurfélagsins Benchmark Genetics. Auk hrognaframleiðslunnar á Íslandi framleiðir fyrirtækið laxahrogn í Noregi og Síle.

„Í dag fara um 75% af okkar hrognaframleiðslu á erlenda markaði og um 25% til innlendra eldisfyrirtækja. Framundan er vöxtur í landeldi, ekki bara hér á landi heldur víða um heim og við erum nú þegar að framleiða laxahrogn fyrir þau fyrirtæki í heiminum sem komin eru af stað í landeldi á laxi,“ segir Jónas en allt frá því Stofnfiskur hóf starfsemi á sínum tíma hefur mikil þróun orðið í hrognaframleiðslunni. Eitt allra stærsta atriðið í þessu er geta Benchmark Genetics Iceland til að afhenda laxahrogn árið um hring. „Framleiðslumódelið okkar hefur alltaf byggt á því að laga okkar framleiðslu að þörfum eldisiðnaðarins og fylgja þannig eftir uppbyggingu hans. Þetta módel var þróað hér á Íslandi og á því byggja einnig verksmiðjur okkar í Noregi og í Síle,“ segir Jónas.

160 milljónir hrogna í fyrra
Framleiðsla Benchmark Genetics Icelandnam yfir 160 milljónum hrogna á árinu 2023. Hvert hrogn gefur um 2,8 kíló af laxi að meðaltali þannig að þessi hrogn gefa vel yfir hálfa milljón tonna af fiski samanlagt en þessi hrogn fara bæði til sjó- og landeldisfyrirtækja víða um heim. Aðspurður segir Jónas að Benchmark Genetics Iceland sé vel í stakk búið að takast á við þann vöxt sem framundan er í fiskeldinu á Íslandi þar sem stór áform eru í landeldisverkefnum. „Framleiðslugeta okkar er í dag vel yfir 200 milljón hrogn á ári og því til viðbótar höfum við þegar leyfi fyrir verulegri aukningu í framleiðslu þannig að við erum vel í stakk búin að mæta aukinni eftirspurn eftir hrognum á Íslandi, sem annars
staðar. Okkar mat er að á næstu 10 árum verði um 2,5% aukning í fiskeldi í heiminum á hverju ári. Með öðrum orðum að eldisframleiðslan aukist á 10 árum um 30-40% frá því sem nú er.“

Nánar er fjallað um Benchmark Genetics í nýju tölublaði Sóknarfæris.

Deila: