Bæði skip með fullfermi

Deila:

Vestmannaeyjaskipin Bergur VE og Vestmannaey VE lönduðu bæði fullfermi í Neskaupstað sl. sunnudag að því er segir á heimasíðu Síldarvinnslunnar. Þar er rætt við skipstjóra þessara skipa.

Haft er eftir Birgi Þór Sverrissyni, skipstjóra á Vestmannaey, að túrinn hefði gengið vel og blíðuveður hefði verið á miðunum. „Við vorum mest á Gerpisflakinu en komum við á Skrúðsgrunni og Tangaflaki. Aflinn var mest ýsa og dálítill þorskur og þetta var hinn fallegasti fiskur.“

Jón Valgeirsson, skipstjóri á Bergi, tekur undir með Birgi Þór og segir að vel hafi aflast. „Aflinn hjá okkur var mest ýsa og veiðin var ágæt í túrnum. Við veiddum að mestu á Gula teppinu og á Gerpisflaki. Við þurftum einfaldlega ekki að fara víða, þetta var býsna þægilegt og fiskurinn var með ágætum. Án efa verður haldið áfram hérna fyrir austan um sinn,“ segir Jón við heimasíðuna.

Deila: