Lækkun veiðigjalda til að auka atvinnuöryggi

Deila:

Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að lækkun gjalda á útgerðina er ein þeirra leiða sem menn verða að horfa til ef þeir vilja treysta rekstraröryggi í sjávarútvegi og atvinnuöryggi starfsfólks. Þetta sagði Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi, við upphaf þingfundar í dag. Guðjón S. Brjánsson, þingmaður Samfylkingarinnar í sama kjördæmi, leit málið öðrum augum og sagði kerfið rotið. Frá þessum umræðum var greint á ruv.is í dag.

Báðir tjáðu þeir sig í framhaldi af þeirri ákvörðun stjórnar HB Granda að hætta botnfiskvinnslu á Akranesi og sameina þá starfsemi þeirri vinnslu sem fram fer í Reykjavík. 93 hafa unnið við starfsemina á Akranesi og er viðbúið að flestum eða öllum verði sagt upp. Það gæti ráðist á fundi fyrirtækisins með trúnaðarmönnum starfsmanna og Verkalýðsfélagi Akraness á morgun.

Teitur Björn rakti það hvernig gengi krónunnar, háir vextir og hækkandi innlendur kostnaður á borð við laun hefði orðið til að grafa undan afkomu sjávarútvegsfyrirtækja. Hann sagði að það væri ekki hægt að horfa fram hjá því að gjöld á sjávarútveginn, umfram aðrar greinar, hefði neikvæð áhrif á afkomu þeirra.

Guðjón sagði jafnaðarmenn vilja breyta sjávarútvegskerfinu „en íhaldsöflin vilja verja með kjafti og klóm“. Guðjón gagnrýndi að stjórnendur eins sjávarútvegsfyrirtækis gætu tekið svo afdrifaríkar ákvarðanir sem hefðu mikil áhrif á líf fjölda fólks. „Þetta eru nöturlegar kveðjur,“ sagði Guðjón og kvað stjórnendur HB Granda ekkert hugsa um örlög reyndra starfsmanna fyrirtækisins. „Þetta er samfélagslegt ábyrgðarleysi.“

Hvers konar brandari er þetta?

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, sagði óboðlegt að fólk sem hefði skapað HB Granda arð með störfum sínum fyrir fyrirtækið sæi nú fram á að verða atvinnulaust. Hún gagnrýndi sérstaklega að þetta væri gert af fyrirtæki sem hefði síðustu ár hagnast um 40 milljarða króna. Nú væri starfsfólkið og bæjarfélagið skilið eftir í sárum. „Menn geta ekki endalaust sagt að þetta sé ekki kvótakerfinu að kenna.“ Hún sagði kvótakerfið virka eins og blóðtappa á byggðir landsins sem kippt væri úr og skapaði óboðlegt atvinnuóöryggi.

„Hvers konar brandari er þetta að vera að tala um þetta í þessu samhengi?“ spurði Lilja Rafney þegar hún gagnrýndi orð Björns Teits um að menn yrðu að líta til þess að lækka veiðigjöld ef þeir vildu tryggja rekstur sjávarútvegsfyrirtækja og atvinnuöryggi starfsfólksins.
Ljósmynd ruv.is

 

Deila: