Fiskvinnslan flutt utan?

Deila:

Heiðrún Lind Marteinsdóttir,framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja, í sjávarútvegi segir að vegna gengisþróunar standi íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum til boða að flytja vinnsluna til útlanda, til Bretlands, Austur- Evrópu og Asíu. Hún segir líka að einhver fyrirtæki, sem hafi ekki möguleika á að hagræða, hafi ekki byrjað rekstur aftur eftir sjómannaverkfallið.

„Í fyrsta lagi eru maður auðvitað sleginn og þetta er auðvitað bara grátlegt, ekkert annað,“ segir Heiðrún Lind í samtali á ruv.is

Þetta eru viðbrögð Heiðrúnar Lindar Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra  Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi við tíðindum af  HB Granda í gær um áform fyrirtækisins að hætta með botnfiskvinnslu á Akranesi. 93 störf er í hættu. Vinnslan sé rekin með tapi og rekstrarhorfur í botnfiskvinnslu hafi ekki verið lakari í áratugi. Að óbreyttu stefni í halla á rekstri fyrirtækisins. Heiðrún segir að þetta sé staða sem útvegsmenn hafi í nokkuð langan tíma verið að benda á að geti orðið og sé fyrirsjáanleg.

Því miður höfum við talað fyrir daufum eyrum. Þessi styrking krónu er ekki lífvænleg fyrir íslenskan útflutning til langs tíma.

Vinnslan til útlanda

HB Grandi er í vanda vegna styrkingar krónunnar og hækkunar á innlendum kostnaði,einkum hækkun launakostnaðar. Því er eðlilegt að spurt sé hvernig staðan er hjá öðrum fyrirtækjum í sjávarútvegi. Hún segir að flokka megi vandann sem blasi við í þrennt. Í fyrsta lagi að fyrirtæki grípi til hagræðingaraðgerða eins og HB Grandi og Eskja í Hafnarfirði.

Þetta eru þó fyrirtæki sem geta hagrætt og eru með starfsstöðvar á öðrum stöðum. Það eru ekki öll fyrirtæki sem geta gengið í gegnum svona aðgerðir og þær eru auðvitað sársaukafullar. Í öðru lagi er það svo ákvörðun og kostur fyrir suma að flytja vinnslu til útlanda. Það eru aðilar þar sem bjóða upp á þá þjónustu og eru að bjóða íslenskum fyrirtækjum að fullvinna afurðir. Þetta hefur auðvitað verið það sem hefur skapað samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs að fullvinna afurðir og það sem hefur skilað mestu til samfélagsins. Við erum þá að fá hærra verð fyrir fullunna afurðir heldur en að flytja þær út frystar og klára vinnslu erlendis. Þetta er eitt af því sem fyrirtæki eru að skoða í þessari stöðu. Svo í þriðja lagi sem er kannski afdrifaríkasta staðan. Það eru fyrirtæki sem munu ekki lifa af þessa sterku krónu. Þar sjáum við fyrirtæki sem eru að berjast í bökkum. Í einhverjum tilvikum höfum við heyrt af fyrirtækjum sem hafa jafnvel ekki farið aftur af stað eftir sjómannaverkfallið

Frá ársbyrjun 2015 hefur enska pundið fallið gagnvart krónu um 25 til 30 % og evran um 15 til 18%. Þegar vinnslan hér er rekin með tapi getur verið freistandi að flytja vinnsluna til útlanda.

Við heyrum af því að það eru íslensk fyrirtæki sem eru að fá tilboð frá aðilum í Bretlandi, Austur Evrópu og jafnvel Asíu um vinnslu á afurðum.

Deila: