Sláandi myndir af illa förnum laxi

Deila:

„Þess vegna er verið að farga þeim öllum. Það hefur enginn séð svona áður. Það er norskur dýralæknir sem hefur verið að vinna hér á landi út af þessu og hann hefur aldrei séð svona á 30 ára ferli sínum,“ segir Karl Steinar Óskarsson, sviðsstjóri fiskeldis hjá Matvælastofnun (MAST) aðspurður um myndbönd sem sýna stöðuna á sjókvíum Arctic Fish í Tálknafirði. Svona hefst grein á Heimildinni þar sem fjallað er um sýkta eldislaxa sem Arctic Fish vinnur nú að því að farga. Meðfylgjandi mynd er stilla sem tekin er úr myndbandi Heimildarinnar.

Í fréttinni eru birt sláandi myndbrot af löxunum. Allur lax í kvíunum eru sárugir vegna laxalúsar og baktería sem komast í sárin. Fram kemur að um milljón eldislaxar hafi drepist eða þeim verið fargað, vegna laxalúsarinnar hjá Arctic Fish og Arnarlaxi í Tálknafirði.

Í færslu á Facebook greinir Arctic Fish frá því að nokkra daga í viðbót muni taka að farga laxinum en um er að ræða sex sjókvíar. „Aðstæður í Tálknafirði hafa versnað snögglega og því miður tekur tíma að taka þann fisk út sem hefur særst. Við vinnum að því eins hratt og mögulegt er og starfsfólk okkar leggur mikið á sig í þeim efnum. Það mun þó taka nokkra daga til viðbótar að taka út þennan fisk.”

Á vef Matvælastofnunar kemur fram að laxeldisfyrirtækjum á sunnanverðum Vestfjörðum hafi gengið erfiðlega að hafa stjórn á fjölgun laxalúsar í Patreksfjarðarflóa síðan í vor.

Deila: