Lýsisneysla dregur úr ofnæmi
„Það hefur sýnt sig að börn sem fá lýsi snemma fá síður fæðuofnæmi, sérstaklega börnin sem fá það fyrir sex mánaða,“ segir Michael Clausen barna og ofnæmislæknir um niðurstöður nýlegrar rannsóknar. Micheal segir að hann finni stundum fyrir því að fólk telji ofnæmi vera léttvægan sjúkdóm, en staðreyndin sé hins vegar sú að hann valdi þeim sem af honum þjást töluverðri vanlíðan og kvíða. Rætt var við Michael í Samfélaginu á Rás 1.
Michael bendir á að alvarlegustu afleiðingar ofnæmis séu dauði. Það sé hins vegar gríðarlega sjaldgæft. Þetta sé flókið að útskýra fyrir fólki. „Það er voðalega erfitt að segja við fólk samtímis, ekki hafa áhyggjur því þetta er svo sjaldgæft en þú getur samt dáið,“ segir hann. „Þegar við skoðum hvernig fólki líður sem er með ofnæmi kemur í ljós að það er töluverð vanlíðan og kvíði fylgir því.“
Michael bendir á að ofnæmi sé hins vegar ekki alltaf viðvarandi – það eldist gjarnan af fólki. Hann segir gott að sem flestir þekki til ofnæmis og viti hvernig það virkar. Ekki þurfa að grípa til mikilla ráðstafanna á hverju heimili fyrir sig – þeir sem þjáist af ofnæmi láti alltaf vita. Það eigi líka við um börnin. „Langflest börn sem eru að fara í heimsókn annars staðar vita allt um þetta og vita nákvæmlega hvað þau mega borða ekki. Börn eru fljót að læra,“ segir hann.
Michael segir fæðu vera algengustu ofnæmiskveikjuna hér á landi. „Hjá börnum eru mjólk og egg algengast og eftir því sem þau eldast koma hneturnar inn. Sérstakleg kasjúhneturnar undanfarið og svo sjávarfangið, fiskur og skelfiskur.“ Michael segir það hins vegar hafa komið í ljós í rannsókn sem hann og fleiru gerðu að helmingur íslenskra barna borða ekki skelfisk. Ekki af því að þau hafi ofnæmi fyrir honum, heldur finnist þau hann bara vera vondur.
Micheal er hluti af rannsóknarhópi á Landspítalanum sem hefur kannað fæðuofnæmi í 13 ár. „VIð höfum meðal annars verið að skoða lýsi og áhrif þess á börn og ofnæmi. Það hefur sýnt sig að börn sem fá lýsi snemma fá síður fæðuofnæmi, sérstaklega börnin sem fá það fyrir sex mánaða.“ Þá dragi lýsisneysla líka úr einkennum ofnæmissjúkdóma, geri þá vægari. Micheal segir að þarna spili líklega inn í samspil omega 3 fitusýra og D vítamíns sem lýsi er sérstaklega ríkt af.
Michael kemur líka að annarri rannsókn þar sem unnið er að þróun bóluefnis til að lækna fiskiofnæmi. Of snemmt að segja til með árangur en hann er að sögn nokkuð jákvæður.
Sjálfur er Micheal ekki með ofnæmi, hann hafi eiginlega dregist inn á þetta sérsvið lækninga fyrir tilviljun.