70% klasafyrirtækja vinna saman

Deila:

Í athugun Íslenska sjávarklasans á samstarfi fyrirtækja í Húsi Sjávarklasans kemur í ljós að um 70% fyrirtækjanna í húsinu höfðu átt samstarf við annað fyrirtæki í húsinu á sl. tveim árum. Þetta hlutfall er töluvert hærra en fram kemur í niðurstöðum athugana á erlendum húsum sem bjóða svipaða þjónustu. Í þessari greiningu Sjávarklasans verður skoðað hver sé ástæða þessa háa hlutfalls samstarfs fyrirtækja í Húsi sjávarklasans og hvað önnur sameiginleg vinnurými hérlendis geti lært af reynslu Húss sjávarklasans.

Ein helsta ástæða góðs árangurs klasafyrirtækja um allan heim er án efa sú að klasa má sumpart telja eitt þekktasta form af því sem nefnt hefur verið deilihagkerfið. Með deilihagkerfinu er átt við að fyrirtæki eða einstaklingar leiti nýrra leiða til að samnýta auðlindir eða framleiðslutæki. Í Húsi sjávarklasans eru nú starfandi um 90 fyrirtæki og yfir 140 einstaklingar eru skráðir með starfsstöð í húsinu. Fyrirtækin eru af ýmsum stærðum og gerðum. Um nær öll fyrirtækin tengjast sjávarútvegi, annarri haftengdri starfsemi eða matvælaiðnaði. Húsið hóf starfsemi árið 2012 og þá voru 10 fyrirtæki sem hófu starfsemi í húsinu með um 30 starfsmenn. Fljótlega eftir opnun var sett á laggirnar fyrsta opna vinnurýmið fyrir frumkvöðla og eru fjögur slík rými starfrækt í húsinu um þessar mundir.

Árangur sameiginlegra skrifstofurýma

Samkvæmt úttekt sem gerð var á vegum Íslandsstofu, Samtaka iðnaðarins og fleiri aðila árið 2014 í tengslum við hugsanlega stofnun hugbúnaðarklasa kom fram að jafnvel þó nokkur hugbúnaðarfyrirtæki væru í sömu byggingu, í eins konar skrifstofuhóteli, væru líkur á samstarfi ekki miklar nema að fyrirtækin væru að deila sameiginlegu rými. Skrifstofuhótel hafa tíðkast víða um heim um áratugaskeið en sameiginleg vinnurými (coworking spaces) eru mun nýrri af nálinni. Munurinn á þessu tvennu liggur fyrst og fremst í því að í sameiginlega vinnurýminu er lagt meira kapp á sameiginleg rými; fundarými, kaffistofur, opin rými þar sem mörg fyrirtæki hafa vinnuaðstöðu og í sumum tilfellum viðburðastjórnun af einhverju tagi sem hefur að markmiði að ýta undir samstarf og efla samfélag fyrirtækjanna. Í gegnum sameiginleg rými skapast grundvöllur til formlegra og óformlegra samskipta sem geta leitt af sér ný og ófyrirséð viðskiptatækifæri.

Rannsóknir sem gerðar hafa verið benda til að með því að raða fólki saman í sameiginleg vinnurými, aukist gæði nýsköpunar og framleiðni. Í rannsókn Harvard háskóla, sem gekk undir nafninu Collocation-Collaboration, voru skoðaðar 35.000 útgefnar greinar á sviði lífvísinda eftir 200.000 höfunda sem birst höfðu í 2000 vísindaritum á tímabilinu 1998-2003. Greinarnar voru ritaðar innan fjögurra helstu rannsóknarmiðstöðva á svæði Harvard háskólans. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að nálægð höfunda við hvern annan skýrir hversu mikil áhrif sameiginlegar greinar þeirra eru taldar hafa í vísindasamfélaginu.

Önnur rannsókn sem gerð var á teymisvinnu sýndi með sama hætti að því nær sem þátttakendur störfuðu því meiri urðu afköst hópsins. Samkvæmt athugunum hjá wework í Bandaríkjunum, sem er stærsta fyrirtæki í heimi á sviði sameiginlegs vinnurýmis fyrirtækja, hefur um 50% fyrirtækja sem nýta sér aðstöðu í wework verið í samstarfi við önnur fyrirtæki innan wework. Samkvæmt athugun sem gerð var í Húsi sjávarklasans er þetta hlutfall um 70% þegar horft er til síðustu tveggja ára. Engin ein skýring er ugglaust fyrir því hvers vegna þetta hlutfall er hærra í Húsi sjávarklasans en hjá fyrirtæki á borð við wework. Þó er líklegasta skýringin sú að í Húsi sjávarklasans eru að uppistöðu til fyrirtæki sem tengjast sjávarútvegi og innlendum matvælaiðnaði. Húsið hefur því markað sér vissa sérstöðu og líklegt má telja að þar sem stór hluti íbúanna hefur áhuga á haftengdum rekstri þá séu meiri líkur á því að fyrirtækin vinni saman.

Meir má lesa greiningu Sjávarklasans á http://www.sjavarklasinn.is/wp-content/uploads/2018/01/klasafyrirt%C3%A6ki-vinna-saman.pdf

 

Deila: