Fjölmargir brjóta ítrekað reglur um hámarksafla

Deila:

25 bátar á strandveiðum hafa að að jafnaði landað meira en 40 kílóum yfir leyfilegum þorskafla það sem af er strandveiðivertíðinni. Þetta má sjá í gögnum Fiskistofu. Eins og Auðlindin hefur greint frá skoðar Fiskistofa nú hvort hægt sé, án sérstakrar lagaheimildar, að sporna við ítrekuðum brotum á reglu um leyfilegan hámarksdagsafla á strandveiðum.

Heimilt er að koma með að hámarki 774 kíló að landi af óslægðum þorski, eða 650 þorskígildi. Langflestir bátarnir sem brjóta þessa reglu eru á svæði A, (flestir úr Vesturbyggð) en nokkrir á svæði D.

Sjá einnig: Mesta veiðin á svæðum A og D

Viðurlögin við þessu eru þau að útgerðirnar eru sektaðar fyrir fiskinn að upphæð sem samsvarar meðalverði á markaði þess dags fyrir umframaflann. Bent hefur verið á að þeir sem eru í stórum og verðmætum fiski geti þannig hagnast svolítið á athæfinu. Ef meðalverð á markaði er 400 krónur en meðalverð á stórfiskinum 500 krónur getur sá sem veiðir umfram leyfilegan hámarksafla haft 100 krónur pr. kíló út úr bröltinu. Umframaflinn dregst, eins og annar afli, frá heildaraflamarki strandveiða. Menn sem ítrekað landa umframafla gera það því á kostnað hinna.

Í svari Fiskistofu við fyrirspurn Auðlindarinnar segir að ekki sé sérstök lagaheimild til að meina aðilum að fara út til veiða ef þeir eru ítrekað með umframafla. Fiskistofa sé að skoða hvort hægt sé að bregðast við alvarlegum og endurteknum brotum á reglu um leyfilegan hámarksafla á þann hátt að athæfið hafi ekki „neikvæðar afleiðingar fyrir aðra sem eru á strandveiðum”.

Uppfært: Ranghermt var í fyrstu útgáfu fréttarinnar að aflaskipið Hafdís BA væri á lista yfir umframlöndun. Þær upplýsingar frá Fiskistofu reyndust ekki réttar. Útgerðarmaðurinn er beðinn velvirðingar á villunni.

Deila: