Nóg að gera hjá fiskmjölsverksmiðjunni á Vopnafirði

Deila:

,,Það er ekki annað hægt að segja en að árið hafi byrjað vel hjá okkur. Við erum búnir að taka á móti um 18.000 tonnum af kolmunna á vertíðinni og á loðnuvertíðinni fengum við um 23.000 tonn af loðnu frá okkar eigin skipum og norsk skip lönduðu hér um 4.400 tonnum.“

Þetta segir Sveinbjörn Sigmundsson, verksmiðjustjóri fiskmjölsverksmiðju HB Granda á Vopnafirði í spjalli á heimasíðu HB Granda.

Nú er verið að vinna úr kolmunnaafla Venusar NS á Vopnafirði og Sveinbjörn segir að Víkingur AK fari af miðunum í nótt eða fyrramálið. Tæpar 400 mílur eru frá miðunum til Vopnafjarðar en hægt verður að byrja að vinna afla Víkings um helgina.

,,Það má segja að miðað við aflabrögðin þá sé samfella í vinnslunni hjá okkur um þessar mundir. Við náum að vinna aflann og þrífa áður en næsti skammtur berst,“ segir Sveinbjörn Sigmundsson.

Deila: